Kínversk stjórnvöld hafa lýst yfir áhuga á undirritun samkomulags við Ísland um samstarf undir yfirskrift „Beltis og brautar.“ Íslensk stjórnvöld hafa ekki mótað sér endanlega afstöðu til verkefnisins. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
Belti og braut er alþjóðlegt innviða- og fjárfestingaverkefni kínverskra stjórnvalda. Samstarfið gæti aukið kínverskar fjárfestingar í innviðum landsins og jafnframt aukið viðskipti á milli ríkjanna. Framtakið er þó afar umdeilt og hafa bandarísk stjórnvöld til dæmis gagnrýnt það harðlega.
Sendiherrann jákvæður
Í viðtali á Hringbraut þann 12. maí síðastliðinn, sagði Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, að íslensk stjórnvöld væru opin fyrir þátttöku í Belti og braut. Hann sagði einnig að verkefnið væri afar árangursríkt.
Málið til skoðunar
Í svari utanríkisráðuneytisins segir að ráðuneytið hafi haft málið til skoðunar „í því augnamiði að greina hvað í framtakinu felst og hvað aðild eða tenging við það gæti þýtt fyrir íslenska hagsmuni.“
Utanríkisráðuneytið telur að samningaumhverfi Íslands og Kína vera nú þegar hagfellt og að það nái til fríverslunar, málefna norðurslóða, vísindasamstarfs, netviðskipta og jarðhita. Megináhersla íslenskra stjórnvalda sé á framkvæmd og fullnustu þeirra samninga sem fyrir liggja, að því er kemur fram í svari ráðuneytisins.
Í svarinu segir enn fremur að megininntak Beltis og brautar sé „uppbygging og fjárfesting í innviðum og samgöngum í samstarfsríkjum Kína. Hafa einstaka ríki gerst formlegir þátttakendur í framtakinu með gerð tvíhliða samstarfssamninga, sem samið er sérstaklega um. Áherslan hefur þó iðulega verið þar á innviðauppbyggingu og fjárfestingar þar að lútandi.“