Alþingi samþykkti í dag frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð en markmið þeirra er að koma á fót nýju fyrirkomulagi launaákvarðana fyrir þá sem féllu undir kjararáð. Frumvarpið var samþykkt með 31 atkvæði en 18 þingmenn sátu hjá.
Lagt var til að laun þjóðkjörinna manna annars vegar og dómara, saksóknara, ráðherra, ráðuneytisstjóra, ríkissáttasemjara, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra hins vegar yrðu ákvörðuð með fastri krónutölufjárhæð og þau síðan endurákvörðuð 1. júlí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.
Jafnframt var lagt til að ráðherra, sem fer með starfsmannamál, gæti ákveðið að hækka launin hlutfallslega 1. janúar ár hvert til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins svo að launahækkanir þessara aðila yrði jafnari og nær almennri þróun kjaramála í tíma en ef hækkunin yrði aðeins einu sinni á ári.
Gert er ráð fyrir að laun og starfskjör forsetaritara og nefndarmanna í fullu starfi hjá nokkrum úrskurðarnefndum verði ákvörðuð með hliðsjón af því launafyrirkomulagi sem ákveðið er í lögum.
Að auki er gert ráð fyrir að laun og starfskjör skrifstofustjóra sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins, sem fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga, verði ákveðin af ráðherra með hliðsjón af kjarasamningi sem aðrir skrifstofustjórar Stjórnarráðsins falla undir. Enn fremur var lagt til að laun og starfskjör sendiherra félli undir kjarasamninga og að viðkomandi stéttarfélag semdi fyrir þeirra hönd.
Ákvarðanir kjararáðs umdeildar
Samþykkt var á Alþingi í fyrrasumar að leggja kjararáð, sjálfstætt ráð sem er falið var það verkefni að ákveða laun og starfskjör æðstu embættismanna ríkisins, niður. Það var gert í kjölfar þess að starfshópur sem skipaður var af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra lagði slíkt til í febrúar 2018.
Sá hópur var skipaður eftir að ákvarðanir kjararáðs höfðu síendurtekið valdið illdeilum á vinnumarkaði og hneykslun í samfélaginu. Bar það hæst sú ákvörðun kjararáðs í október 2016 að hækka laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og laun ráðherra. Samkvæmt úrskurði kjararáðs urðu laun forseta Íslands 2.985.000 krónur á mánuði, þingfararkaup alþingismanna 1.101.194 krónur á mánuði, laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi varð 2.021.825 krónur á mánuði og laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi urðu 1.826.273 krónur á mánuði. Laun þingmanna hækkuðu hlutfallslega mest við ákvörðun kjararáðs, eða um 44,3 prósent.
Laun þingmanna og ráðherra hækka ekki 1. júlí
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sendi efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis minnisblað í apríl síðastliðnum, með samþykki ríkisstjórnar, þar sem hann lagði til tvær breytingar á frumvarpinu.
Önnur breytingin var sú að launahækkun kjörinna fulltrúa – þingmanna og ráðherra – sem átti að koma til framkvæmda 1. júlí næstkomandi myndi ekki verða. Þess í stað yrði ráðherranum veitt heimild í eitt skipti til að hækka laun laun þjóðkjörinna fulltrúa þann 1. janúar 2020 til samræmis við áætlaða breytingu á launum þann 1. júlí 2020.
Auk þess var lagt til að ákvæði um heimild ráðherra til að hækka laun 1. janúar til samræmis við áætlaða breytingu á launum 1. júlí yrði fellt út en ákvæðið er í nokkrum greinum frumvarpsins.