Starfsmönnum forsætisráðuneytisins fjölgaði um 29,5 prósent frá janúar 2016 til apríl 2019. Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um starfsmenn á launaskrá forsætisráðuneytisins.
Í svarinu segir að í janúar árið 2016 hafi 44 starfsmenn verið á launaskrá forsætisráðuneytisins. Í janúar árið 2017 hafi þeir verið 46, 49 í janúar 2018, 54 í janúar 2019 og í apríl 2019 hafi þeir verið 57.
Þó er vert að taka fram að samkvæmt ráðuneytinu endurspegla framangreindar tölur ekki fjölda stöðugilda en misjafnt er á milli ára hve margir starfsmenn eru í hlutastörfum eða í tímabundnum störfum.
Nýlegar breytingar hafa haft mikil áhrif á fjölgun starfsfólks
„Á tímabilinu sem spurt er um hefur skipurit forsætisráðuneytisins tekið nokkrum breytingum, meðal annars í tengslum við breytingar á forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og styrkingu á samhæfingarhlutverki ráðuneytisins,“ segir í svari ráðherra.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur og þingmaður Samfylkingarinnar á árunum 2007 til 2010, var skipuð í stöðu skrifstofustjóra yfir nýrri skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu um miðjan febrúar síðastliðinn en Katrín Jakobsdóttir skipaði hana í starfið.