Meirihluti fjárlaganefndar kynnti tillögur sínar við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í dag. Um er að ræða 28 milljarða niðurskurð í stað 43 milljarða á næstu fimm árum. Þetta kom fram í færslu Ágústs Ólafar Ágústssonar, þingmanni Samfylkingarinnar, á Facebook í dag.
Ágúst Ólafur sagði meðal annars að vinna stjórnarandstöðunnar og Öryrkjabandalagsins hafi skilað miklu og mismunur upphæðar þessarar tillögu og fyrri vera 15 milljarð króna minni niðurskurður „sem öryrkjar, sjúkrahús, framhaldsskólar, löggæsla, húsnæðisstuðningur ungs fólks og fleiri stoðir velferðarkerfisins njóta góðs af á erfiðum tímum.“
Niðurskurður þrástef nýrrar fjármálaáætlunar
Samkvæmt færslunni verður framlag til umhverfismála lækkað um einn milljarð í stað fyrir 1,4 milljarð. Skorið verður einnig niður hjá framhaldsskólum, eða um 1,2 milljarð króna.
Framlag til sjúkrahúsa verður lækkað um tvo milljarða í stað 4,7 milljarða, á meðan heilsugæslan og sérfræðiaðstoð fá 1,5 milljarða króna lækkun, að því er kemur fram í færslu Ágústs Ólafar.
Skorið verður einnig í nýsköpun og rannsóknum, eða um 3,2 milljarða króna, sem er meiri niðurskurður en fyrri tillaga lagði til. Skorið verður einnig niður í samgöngumálum.
Í færslu sinni á Facebook gagnrýndi Ágúst að samdráttur í hagkerfinu lendi einna mest á öryrkjum. „Við höldum allavega áfram að berjast fyrir réttlátara samfélagi og gegn því að undirstöður velferðar- og skólakerfisins verði látin taka stærstu höggin vegna slæmrar hagstjórnar ríkisstjórnarflokkanna og versnandi aðstæðna í hagkerfinu,“ skrifaði Ágúst Ólafur í lok færslunnar.
Meirihluti fjárlaganefndar var rétt í þessu að kynna tillögur sínar við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar....
Posted by Ágúst Ólafur Ágústsson on Wednesday, June 19, 2019