Ríkislögmanni hefur borist stefnur frá útgerðarfélögum vegna úthlutunar makrílkvóta á árunum 2011 til og með 2014. Ríkislögmaður staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið en gefur ekki upp fjölda stefna né hversu háar bótakröfurnar eru. Að mati Axels Helgasonar, formanns stjórnar Landssambands smábátaeigandi, gætu þau fyrirtæki sem ætla sér að sækja sér bætur til ríkisins fengið um það bil 35 milljarða króna.
Sex fyrirtæki stefnt ríkinu
Í desember í fyrra komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ríkið væri skaðabótaskylt vegna fjártjóns sem útgerðarfélög hefðu orðið fyrir vegna reglugerðar um skiptingu makrílkvóta á árinu 2011 til 2014, sem reyndist ólögmæt. Hæstiréttur dæmdi íslenska ríkið skaðabótaskylt gagnvart útgerðunum Hugin og Ísfélagi Vestmannaeyja en engar bætur voru þó dæmdar til útgerðarfyrirtækjanna heldur einungis viðurkennd bótaskylda.
Í umfjöllun Fréttablaðsins í dag segir að ríkislögmaður hafi staðfest að stefnurnar séu komnar á borð embættisins en að ekki sé búið að þingfesta þær. Samkvæmt heimildum blaðsins eru stefnurnar bæði frá stórum og meðalstórum útgerðum en ekki fékkst uppgefið hjá ríkislögmanni hversu margar stefnurnar væru né hversu háar kröfurnar væru.
Um háar upphæðir að ræða
Morgunblaðið greindi frá því í síðustu viku að sex fyrirtæki í sjávarútvegi hafi stefnt íslenska ríkinu vegna úthlutunar makrílkvóta á árunum 2015 til 2018. Um er að ræða Hugin, Vinnslustöð Vestmannaeyja, Ísfélag Vestmannaeyja, Loðnuvinnsluna, Skinney-Þinganes og Gjögu.
Axel Helgason, formaður stjórnar Landssambands smábátaeigenda, segir í samtali við Fréttablaðið að minnsta kosti sex fyrirtæki ætli að sækja bætur. Að hans mati gætu þau fyrirtæki sem ætla að sækja sér bætur til ríkisins fengið um það bil 35 milljarða. Hann bendir á að makrílkvótinn sé á bilinu 65 til 100 milljarða króna virði og því um háar fjárhæðir að ræða.
Segja stjórnvöld hygla stórútgerðum
Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um kvótasetningu á makríl þar sem minnstu útgerðunum á makríl er gert að taka á sig 45 prósent skerðingu í úthlutuðum aflaheimildum. Í þessum flokki útgerða hafa verið stundaðar veiðar með krókum allt frá árinu 2008. Í fyrra fengu skip úthlutað um 5 þúsund tonnum til veiða, en samkvæmt framlögðu frumvarpi þá fá þessar útgerðir um 2.700 tonn.
Unnsteinn Þráinsson, formaður Félags makrílveiðimanna, sagði í samtali við Kjarnann í síðustu viku að frumvarpið væri ósætannlegt og að hans félagsmenn væru afar ásóttir. Hann sagði að heimildirnir séu að mestu færðar til „stórútgerða landsins“, en afgangurinn fari í leigupott þar sem veiðigjald verður tvöfalt, sem sé sérstaklega þungt í reksturinn hjá félagsmönnum Félags makrílveiðimanna.
Hann sagðist enn fremur sannfærður um að efnisatriði fyrrnefnds frumvarps, eins og það sé nú, standist ekki lög og stjórnarskrá, og að félagsmenn muni láta reyna á það fyrir dómstólum. Hefur Jóhannes Bjarni Björnsson hrl. meðal annars unnið minnisblað fyrir félagið, sem Unnsteinn telur að sýni glögglega að lagalegur grunnur málsins sé ekki fyrir hendi.