Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um endurskoðun lögræðislaga í dag. Markmið þessarar heildarendurskoðunar er að gera tillögur um nauðsynlegar breytingar á lögunum sem og á öðrum lögum, þar á meðal lögum um réttindi sjúklinga, barnaverndarlögum, lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk og almennum hegningarlögum. 53 þingmenn greiddu atkvæði með tillögunni og einn sat hjá.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, lagði þingsályktunartillöguna fram og segir hún á Facebook-síðu sinni að samþykkt tillögunnar færi Íslendinga nær því að afmá beina lagalega mismunun gegn fötluðu fólki og fólki sem er með, eða er talið vera með geðsjúkdóm, úr íslenskum lögum.
„Takist okkur vel til þá eflum við mannréttindi allra á Íslandi og ég get ekki beðið eftir því að hefjast handa!“ skrifar hún.
Kosin verður sérnefnd þingmanna en í nefndina kýs Alþingi þingmenn úr öllum þingflokkum sem sæti eiga á þingi og mun nefndin hafa víðtækt samráð við hlutaðeigandi stofnanir og hagsmunaaðila við vinnu að endurskoðuninni, þar á meðal við samtök fatlaðs fólks. Nefndin mun jafnframt hafa samráð við dómsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið og munu ráðuneytin vera nefndinni til ráðgjafar við mat á nauðsynlegum lagabreytingum.
Auk almennrar heildarendurskoðunar verður sérstaklega litið til ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um afnám allrar mismununar gagnvart fólki með fötlun, rétt fatlaðra einstaklinga til þess að njóta lögformlegs hæfis til jafns við aðra, stuðning við ákvarðanatöku í stað staðgengilsákvarðanatöku, rétt fatlaðra einstaklinga til frelsis til jafns við aðra, afnám þvingandi meðferðar og lyfjameðferðar á grundvelli fötlunar og rétt fatlaðs fólks til viðeigandi aðlögunar.
Í dag fögnum við því að 104 ár eru frá því að konur fengu fyrst kosningarétt. Mannéttindi eru ekki sjálfgefin og við...
Posted by Þórhildur Sunna Ævarsdóttir on Wednesday, June 19, 2019
Þórhildur Sunna sagði í samtali við Kjarnann í byrjun mars síðastliðins að tillagan væri einungis fyrsta skrefið. „Tillagan gengur út á það að Alþingi samþykki að heildarendurskoðun fari af stað og að hún eigi sér ekki stað inni í dómsmálaráðuneytinu heldur á vettvangi þingsins. Og að farið verði með hana á svipaðan hátt og endurskoðun útlendingalaganna á sínum tíma,“ sagði hún og benti á að fordæmi væru einmitt fyrir því í svona málum.