Íslendingar treysta ekki Alþingi, en þeir treysta lögreglunni. Traust Íslendinga til dómskerfisins flöktir, en traust á öðrum opinberum stofnunum hefur aukist með tímanum. Þetta kom fram í máli Sjafnar Vilhelmsdóttur, forstöðumanns Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, í málstofu á Degi stjórnmálafræðinnar á þriðjudaginn síðastliðinn.
Sjöfn hefur rannsakað þróun pólitísks trausts á Íslandi frá árinu 1983 til 2018. Hún sagði á málstofunni efnahagshrunið 2008 bjóða upp á áhugaverðan „fyrir og eftir“ samanburð á þróun trausts almennings til stjórnvalda.
Íslendingar treysta lögreglunni
Sjöfn lagði áherslu á að gögnin segi til um hverjir treysta og hverjir treysta ekki, en þau segi ekki til um hvort þeir sem sögðust ekki treysta væru skeptískir eða fullir vantrausts
Lögreglan hélt sínu trausti eftir hrunið og hefur traust til hennar í raun aukist. Traust almennings á lögreglunni stendur í dag í 93 prósentum, en var 75 prósent 1984. Traust á opinberum stofnunum hefur einnig aukist á meðan traust á réttarkerfinu hefur flöktað.
Traust til Alþingis hríðféll í hruninu
Í hruninu 2008 hrundi traust almennings til Alþingis niður í 39 prósent svarenda úr 72 prósentum. Traust almennings hefur ekki náð sér almennilega á skrið eftir hrun og stendur nú í 44 prósentum svarenda, að því er kom fram í fyrirlestri Sjafnar.
Til samanburðar var traust almennings á Alþingi meiri heldur en á opinberum stofnunum fram til ársins 1999 þegar traust almennings á Alþingi var í fyrsta sinn minna heldur en á opinberum stofnunum.
Íslendingar treysta minna en aðrir norðurlandabúar
Traust íslensks almennings á þjóðþingi er minna en traust annarra norðurlandaþjóða til eigin þjóðþings. Almennt hefur traust almennings á Norðurlöndum sögulega verið mest af Evrópuríkjum, að því er kom fram í máli Sjafnar.
Sjöfn telur að líkindi þróunarinnar séu sambærilegri öðrum þjóðum sem lentu illa í efnahagskreppunni 2008, til dæmis Írlandi, Portúgal og Spáni. Löndin eiga það sameiginlegt að traust til þjóðþings féll í hruninu 2008 en traustið hefur síðan aukist töluvert.
Hvað útskýrir traust eða vantraust?
Svo virðist sem þjóðfélagsstaða segi mikið til um hvort einstaklingar treysti stofnunum á Íslandi. Þeir sem eldri eru, háskólamenntaðir og einstaklingar sem eru vel stæðir treysta frekar opinberum stofnunum, lögreglunni, Alþingi og dómskerfinu, en aðrir samfélagshópar, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar. Sterkasti þátturinn sem segir til um traust er þó ánægja með efnahagslífið.
Þeir sem samsami sig við stjórnmálaflokka á Alþingi treysti betur en þeir sem ekki tengi sig við stjórnmálaflokk. Auk þess treysti þeir frekar sem samsami sig við ríkisstjórnarflokka heldur en þeir sem ekki það geri, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar.
Vantraust ekki rót vandans
Sjöfn sagði vantraust eitt og sér ekki vera rót vandans, heldur væri vantraust birtingarmynd einhvers annars. Traust geti til dæmis aukist þegar þeir sem óánægðir séu finni sinn mann, konu, eða sinn flokk í kerfinu. Dæmi um slíkt er þegar nýir flokkar myndist.
Traust ákveðins hóps í Bandaríkjunum á stjórnkerfinu gæti til dæmis hafa aukist þegar Donald Trump komst til valda, að því er kom fram í máli Sjafnar.