Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna segir að breytingar á vöxtum breytilegra verðtryggða lána sjóðsins, sem eiga að hækka um tæp tíu prósent 1. ágúst næstkomandi, hafi verið vegna þess að vextirnir hefðu verið „orðnir óeðlilegir“. Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu frá sjóðnum vega umfjöllunar um vaxtabreytingar hans.
Vextirnir eru í dag 2,06 prósent, sem eru lægstu vextir sem í boði eru á húsnæðislánamarkaði. Þeir munu hækka upp í 2,26 prósent í ágúst.
Í tilkynningunni segir: „Sjóðfélagar með réttindi í Lífeyrissjóði verzlunarmanna eru um 170 þúsund talsins. Lántakendur sjóðfélagalána með breytilega verðtryggða vexti eru um 3.700 talsins. Stjórn sjóðsins ber skylda til að gæta hagsmuna allra sjóðfélaga og ávaxta iðgjöld þeirra með besta mögulega hætti í þeim tilgangi að tryggja þeim sem bestan lífeyri. Það samræmist illa þessari afdráttarlausu skyldu að taka hagsmuni 3.700 lántaka fram yfir allan þorra sjóðfélaga með því að festa vexti sem eiga samkvæmt ákvæðum skuldabréfanna að vera breytilegir.“
„Algjör trúnaðarbrestur“
Undir tilkynninguna skrifar Ólafur Reimar Gunnarsson, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Hann er einn fjögurra af átta stjórnarmönnum sem sitja þar í umboði VR.
Kjarninn greindi frá því í morgun að stjórn VR hafi samþykkt á fundi í gær, með 13 af 15 greiddum atkvæðum, að boða fund í fulltrúaráði VR hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna þar sem lögð verður fram tillaga um að afturkalla umboð allra stjórnarmanna VR sem sitja í stjórn lífeyrissjóðsins og skipa nýja stjórn til bráðabirgða. Fundur fulltrúaráðsins verður haldin á morgun, fimmtudag.
Ástæðan er „algjör trúnaðarbrestur“ milli stjórnarmanna sem VR skipar og stjórnar félagsins vegna ákvörðunar sjóðsins um að hækka breytilega verðtryggða vexti sem sjóðsfélögum bjóðast til húsnæðiskaupa um tæp tíu prósent.
Samþykki fulltrúaráðið tillöguna munu Ólafur Reimar og hinir þrír fulltrúar VR í stjórninni verða settir af og nýir skipaðir í þeirra stað.
Spyr hvort að forsendur fjármálakerfisins eigi að ráða
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, tjáði sig um málið í stöðuuppfærslu á Facebook fyrr í dag. þar spurði hann meðal annars hvort að það ætti að sætta sig við það að „lífeyrissjóðunum okkar sé alfarið stjórnað á forsendum fjármálakerfisins, eins og verið hefur, eða eigum við sem verkalýðshreyfing að beita okkur fyrir því að áherslur okkar um betri lífskjör, siðferði og samfélagslega ábyrgð fái raunverulegt vægi þar inni? Er ásættanlegt að vextir hækki bara vegna þess að stjórnarmönnum lífeyrissjóðs finnst þeir vera of lágir án þess að hafa fyrir því haldbær rök?“
Við höfum tekið saman gögn um það að álagning banka og lífeyrissjóða hefur aukist mikið, markaðsvextir hafa lækkað...
Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Wednesday, June 19, 2019