Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar, sem samanstendur af nefndarmönnum stjórnarflokkanna þriggja og nefndarmanni Miðflokksins, telur ekki unnt að samþykkja frumvarp til laga um mannanöfn sem felur í sér að mannanafnanefnd verði lögð niður og að allir sem vilja geti breytt nafni sínu kjósi þeir svo. Auk þess felst í frumvarpinu að nöfn yrðu ekki lengur bundin kyni, ekki yrði gerður greinarmunur á eiginnöfnum og millinöfnum og tryggt væri að lög um mannanöfn myndu ekki takmarka persónufrelsi fólks, til dæmis til að skilgreina sig.
Frumvarpið, sem fól í sér heildarendurskoðun á lögum um mannanöfn, var lagt fram af þingmönnum Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata í fyrrahaust. Fyrsti flutningsmaður þess var Þorsteinn Víglundsson.
Það hafði áður verið lagt fram en ekki hlotið þinglega meðferð. Í september 2018 gekk það hins vegar til allsherjar- og menntamálanefndar og hefur verið þar til vinnslu síðan. Niðurstaða þeirrar vinnu er nú komin fram í formi álits meirihluta nefndarinnar.
Telja æskilegt að löggjöf verði skoðuð nánar
Í álitinu segir að við meðferð málsins hafi almennt verið samhljómur á meðal gesta um að tímabært væri að endurskoða lög um mannanöfn og að þörf væri á að gera tilteknar breytingar á lögunum, þar á meðal er varða hlutverk mannanafnanefndar, ákvæði um nafnbreytingar og um karlmanns- og kvenmannsnöfn, misræmi í heimild til að nota erlend nöfn á afkomendur eftir því hvort um eiginnafn eða millinafn er að ræða og fleira.
Aftur á móti hafi komið fram sjónarmið um að frumvarpið leiddi til nýrra og jafnvel ófyrirsjáanlegra álitaefna. „Þá skorti í einhverjum tilvikum nánari útfærsla á fyrirkomulagi og/eða skýringar í greinargerð um ástæður þess að ekki væri kveðið á um t.d. ráðgjöf um nafngift, rithátt, röð nafna, millinöfn, mannanafnaskrá eða amaákvæði. Auk þess var nefndinni bent á mikilvægi þess að taka tillit til íslenskrar tungu, íslensks málkerfis og íslenskrar nafnahefðar.“
Með hliðsjón af framangreindu taldi meiri hlutinn æskilegt að löggjöf á þessu sviði yrði skoðuð nánar. „Að því sögðu er það mat meiri hlutans að nálgast þurfi breytingar á fyrirkomulagi mannanafna og laga um mannanöfn með öðrum hætti, þar sem ekki er skilið á milli mannanafna og íslenskrar tungu að öðru leyti. Að auki er ekki hægt að fullyrða um afleiðingar eða áhrif frumvarpsins yrði það samþykkt. Meiri hlutinn telur því ekki unnt að samþykkja frumvarpið.“
Undir meirihlutaálitið skrifa Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar, Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Andrés Ingi Jónsson og Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmenn Vinstri grænna, Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins, og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins.