Íslendingar treysta ekki stjórnvöldum en félagslegt traust helst hátt. Lítið er vitað hvað virkar í raun til þess að auka traust til stjórnvalda og vantraust hentar sumum stjórnmálamönnum. Þetta kom fram í máli Huldu Þórisdóttur, dósents í stjórnmálasálfræði á málstofu á Degi stjórnmálafræðinnar þriðjudaginn síðastliðinn.
Í fyrirlestri sínum benti Hulda á að traust almennings á stjórnvöldum hafi raunveruleg áhrif á möguleika þeirra til að koma stefnumálum sínum í framkvæmd. Samkvæmt tölum OECD hafi hrun orðið víða um heim í trausti til stjórnvalda eftir efnahagskrísuna 2008.
Til þess að auka traust þurfi borgarar að upplifa sanngirni ferla og vinnubragða, sanngjarnar niðurstöður og opið aðgengi að upplýsingum, að því er kom fram í máli Huldu.
Lítið vitað hvað virkar í raun
Hulda vísaði til skýrslu starfshóps um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu sem birtist síðastliðið haust. Samkvæmt niðurstöðum hennar er skortur á heildarstefnu stjórnvalda og slæg eftirfylgni tilmæla aljþóðlegra stofnana.
Starfshópurinn lagði til úrbótatillögur, til dæmis að stjórnvöldum væru settar siðareglur, auk þess sem virkni þeirra og eftirfylgd væru tryggð. Nauðsynlegt væri að efla hagsmunaskráningu stjórnvalda, betri rammi væri byggður um hagsmunavörslu og uppljóstrarar verndaðir.
Hulda sagði að lítið væri um empírískar rannsóknir á því hvað virki í raun, það er að segja hvað geti raunverulega eflt traust almennings til stjórnsýslunnar.
Félagslegt traust á Íslandi er hátt
Félagslegt traust, það er traust sem borgarar bera til samborgara sinna, hafi ávallt mælst hátt á Íslandi og haggaðist ekki við hrunið, að því er kom fram í máli Huldu.
Því var hrun í trausti til stjórnvalda, en ekki hrun í félagslegu trausti eftir efnahagskrísuna 2008. Hulda sagði það vera hálmstráið sem hún grípi til þegar hún hugsi hvort hægt sé að auka traust til Alþingis.
Vantraust hentar sumum stjórnmálamönnum
Hulda sagði ýmsar ástæður geta legið að baki auknu vantrausti, til að mynda auknar kröfur almennings, aukin menntun og að ekki væri sama virðing borin fyrir valdinu og áður. Stjórnmálamenn væru einnig berskjaldaðri en áður.
Hulda nefndi í pallborði að vantraust geti hentað sumum stjórnmálamönnum, sérstaklega hægri popúlískum flokkum. Hún sagði suma stjórnmálamenn nærast á vantrausti og jafnvel ýta undir það.
„Það er vitað mál að málþóf eykur vantraust til þinga en það virðist ekki skipta máli. Það nærir þá ákvæðið fylgi, óánægjufylgi, við þá sem eru óánægðir við ríkjandi stjórnkerfi,“ sagði Hulda.
Hulda sagði að traust væri að stórum hluta „ímyndarvandi“ sem er mögulega stuðandi niðurstaða fyrir marga. Hún telji að stjórnmálamenn og Alþingi þurfi að reyna að virkja markmiðadrifna hugsun sér í hag og haga sér eins og þau eigi von á því að fólk treysti þeim, það er að reikna með því að þau séu traustsins verð, vilji þau auka traust til Alþingis. Vissulega verði það að vera í bland við reglur sem taki með skýrum hætti á þeim sem augljóslega fara yfir strikið.