Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um skilgreiningu auðlinda í dag. Samkvæmt tillögunni felur Alþingi umhverfis- og auðlindaráðherra að leggja fram lagafrumvarp á næsta löggjafarþingi þar sem skilgreint verði hvað flokkist til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands séu. Sérfræðingar á sviði auðlindaréttar, umhverfisfræða og umhverfisréttar munu vinna drög að frumvarpinu.
Sjö þingmenn Miðflokksins lögðu tillöguna fram en hún var samþykkt með 42 atkvæðum gegn fjórum. Ellefu greiddu ekki atkvæði.
Sambærilegar þingsályktunartillögur hafa áður verið lagðar fyrir Alþingi og tekur orðalag tillögunnar nú mið af þeim ábendingum sem komu fram í umsögnum þá. Umhverfis- og samgöngunefnd fjallaði um málið og fékk sendar umsagnir frá Landgræðslu ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Samtökum náttúrustofa og Veðurstofu Íslands.
Vill ekki að ráðherra sé skyldaður til að leggja fram frumvarp
Í erindunum frá umsagnaraðilum er breytingum frá fyrri framlagningu fagnað og stuðningi lýst við framgang málsins. Í umsögnum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Samtaka náttúrustofa er sérstaklega varað við því að auðlindir verði skilgreindar á tæmandi hátt og tekur umhverfis- og samgöngunefnd undir ábendingar í þá veru.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði grein fyrir atkvæði sínu á Alþingi í dag en hann sagði að þó að þingsályktunartillagan hefði nú heldur skánað frá því hún kom fram fyrst þá vildi hann upplýsa þingheim um það að fátt færi meira í taugarnar á honum en þingsályktunartillögur sem skylda ráðherra til að leggja fram frumvarp á næsta þingi. Og þá sé sérstaklega tekið fram hverjir eigi að semja frumvarpið. „Og meira að segja á að segja hverjar eru auðlindir Íslands. Verði þeim ráðherra að góðu,“ sagði Brynjar en hann greiddi atkvæði á móti tillögunni.
Allir þættir náttúrunnar geta talist til náttúruauðlinda
Í greinargerð með tillögunni segir að hugtakið auðlind sé víðfeðmt og nái til margra þátta samfélagsins. Talið sé að allir þættir náttúrunnar, jörðin, lífríkið, vatn, sólarljós og loft geti talist til náttúruauðlinda. Auðlindir geti verið skilgreindar sem þjóðareign, svo sem fiskstofnar.
„Afskipti ríkisins ná samt til margra annarra auðlinda en þeirra sem beinlínis eru taldar þjóðareign. Samfélagið sjálft hefur tekið á sig að stuðla að verndun mikilvægra þátta umhverfisins, svo sem hreinleika andrúmsloftsins, og sett reglur um nýtingu dýrastofna og annarra þátta lífríkisins. Segja má að náttúruauðlindir geti verið beinn þáttur í neyslu, t.d. útivistarsvæði og veiðisvæði fyrir villt dýr. Þær auðlindir sem ekki teljast vera náttúruauðlindir eðli málsins samkvæmt eru t.d. mannauður, þekkingarkerfi, gagnagrunnar og önnur hliðstæð verkefni sem menn hafa skapað,“ segir í greinargerðinni.