VR hefur formlega svarað áminningu Fjármálaeftirlitsins um þær kröfur sem gerðar eru til starfsemi lífeyrissjóða sem eftirlitið birti í kjölfar ákvörðunar VR um að draga umboð núverandi stjórnarmanna félagsins í Lífeyrissjóði Verslunarmanna. „Þessa sneið fáum við frá Fjármálaeftirlitinu vegna þeirrar fullkomnlega löglegu aðgerðar okkar að draga umboð núverandi stjórnarmanna okkar í Lífeyrissjóði verzlunarmanna til baka og skipa þar nýtt fólk eins og er okkar hlutverk og ábyrgð,“ segir í svari VR.
VR situr ekki þögult hjá
Á fundi sem haldinn var í fulltrúaráði VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna í gærkvöldi var samþykkt að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og var að auki samþykkt tillaga um nýja stjórnarmenn til bráðabirgða. Áður hafði stjórn VR lýst yfir trúnaðarbresti gagnvart stjórnarmönnum félagsins hjá sjóðnum vegna samþykktar stjórnar hans um hækkun breytilegra vaxta verðtryggðra sjóðfélagalána sem gengur í berhögg við hina miklu áherslu sem lögð var á vaxtalækkanir í nýgerðum kjarasamningi.
Fjármálaeftirlitið birti á vef sínum þann 19. júní áminningu í tilefni frétta um að stéttarfélag hefði til skoðunar að afturkalla umboð stjórnarmanna sem félagið hafði þegar tilnefnt í stjórn lífeyrissjóðs. Fjármálaeftirlitið benti því á þær kröfur sem gerðar eru til starfsemi lífeyrissjóða samkvæmt lögum. Í áminningunni segir að Fjármálaeftirlitið telji að stjórnarmönnum lífeyrissjóða sé óheimilt að beita sér fyrir því að lífeyrissjóði séu nýttir í öðrum tilgangi en þeim sem lýst er í lögum um starfsemi lífeyrissjóða.
VR hefur nú svarað þessari áminningu og segir að aðgerð þeirra sé fullkomlega lögleg. Félagið bendir jafnframt á að í nýgerðum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði hafi verið lögð áhersla á vaxtalækkun. Samkvæmt umfjöllun VR hefur lækkun vaxta á markaði undanfarin misseri ekki skilað sér til neytenda í lægri vöxtum íbúðalána og álag banka og lífeyrissjóða hefur bara aukist.
„Þegar stjórnarmenn VR í lífeyrissjóðnum standa að ákvörðun sem gengur þvert gegn þessari sátt og mikilvægu stefnu VR og hækkar vexti á íbúðalánum, þrátt fyrir að vextir á markaði hafa lækkað, situr VR ekki þögult hjá.“
Í svarinu segir jafnframt að Fjármálaeftirlitið hljóti að eiga að haga sínu eftirliti þannig að hagsmunir neytenda séu varðir. „Hvernig væri nú að Fjármálaeftirlitið sinnti þessum skyldum og gætti hagsmuna lántakenda eins og þeir gæta hagsmuna fjármagnseigenda?“
Krafa um að sjóðirnir starfi með siðferðislegu sjónarmiði
Í stöðufærslu á Facebook skrifar Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, fyrr í dag að nú sé tími til kominn að verkalýðshreyfingin beiti sér fyrir því að atvinnurekendur fari úr stjórnum lífeyrissjóða. Í færslunni svarar Ragnar Guðrúnu Hafsteinsdóttur, varaformanni stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) og stjórnarformanni Landssamtaka lífeyrissjóða, en hún sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að henni þætti atburðarásin vægast sagt mjög hryggileg. „Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, rétt eins og Samtök atvinnulífsins, er bakland sjóðsins og þeir sem eiga að standa vörð um hann en ekki gera aðför að stjórninni eins og þarna var gert að hálfu VR.“
Ragnar segir aftur á móti að lengi hafi verið rökstuddur grunur um skuggastjórnun af hálfu fyrrum stjórnarmanna úr röðum SA og því broslegt að slíkar ásakanir skuli koma úr röðum þeirra sem sjóðirnir hafa raunverulega þjónað. „Þessi hörðu viðbrögð koma ekki á óvart í ljósi þess að krafa okkar í verkalýðshreyfingunni er að sjóðirnir starfi með siðferðislegri sjónarmið að leiðarljósi og taki hag almennings (allra sjóðfélaga) fram yfir taumlausa græðgi og þjónkun við fjármálakerfið,“ skrifar Ragnar.
Hann segir að í ljósi þess að engin haldbær rök hafi verið fyrir hækkun sjóðsins á breytilegum vöxtum – heldur hefðu þeir þvert á móti átt að lækka – og að stjórn sjóðsins hafi fundist vextir vera orðnir of lágir, og hafi þannig breytt um viðmið í miðri á, megi spyrja um réttarstöðu þeirra sjóðfélaga sem eru með lán á breytilegum vöxtum hjá sjóðnum.
Sér ekki hvernig Fjármálaeftirlitið geti setið hjá
Guðrún sagði jafnframt í samtali við mbl.is að hún sæi ekki hvernig Fjármálaeftirlitið ætli að sitja hjá hjá þessum málum. „Ég sé ekki hvernig Fjármálaeftirlitið ætlar að sitja hjá í þessum málum, því að þarna er utanaðkomandi aðili farinn að vasast í ákvörðunum stjórnar sem að hann hefur ekkert vald til að gera. Hann hefur ekki boðvald gagnvart stjórnarmönnum sem að hann skipar í þessa stjórn, það er alveg á hreinu,“ sagði hún.
Ragnar svarar því í stöðufærslunni og segir: „Ef Guðrún Hafsteinsdóttir kallar eftir viðbrögðum FME vegna þeirra breytinga sem við samþykktum á stjórn sjóðsins, og erum í fullum rétti til, þá mætti hún láta nokkrar af glórulausum fjárfestingum sjóðsins fylgja með í þeirri beiðni um skoðun.“