47 prósent Íslendinga eru andvígir að þriðji orkupakkinn taki gildi á Íslandi en 34 prósent eru fylgjandi. Um fimmtungur tekur ekki afstöðu til málsins. Stuðningur meðal kjósenda ríkisstjórnarflokkanna jókst frá því að síðasta könnun var gerð í maí síðastliðnum og mest meðal Vinstri grænna. Þetta kemur fram í könnun MMR sem framkvæmd var 7. til 14. júní 2019. Heildarfjöldi svarenda var 998.
Þriðjungur landsmanna er mjög andvígur því að þriðji orkupakkinn taki gildi og er lítill munur á milli kannana. 13 prósent eru frekar andvíg og 15 prósent frekar fylgjandi. Hlutfall þeirra sem svara „bæði og“ helst svipað milli kannana. Hlutfall þeirra sem eru mjög fylgjandi eykst um sex prósentustig á milli kannana, það er úr 13 prósentum í 19 prósent. Þriðjungur þátttakenda tók ekki afstöðu til spurningarinnar, að því er kemur fram í tilkynningu MMR.
Stuðningur við þriðja orkupakkann er mestur meðal svarenda 68 ára og eldri, þar af eru 22 prósent þeirra mjög fylgjandi. Hins vegar eru svarendur á aldrinum 50 til 67 ára þeir sem helst eru andvígir innleiðingu eða um 37 prósent þeirra.
Skýr munur er á milli íbúa höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. 29 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins eru mjög andvígir samanborið við 41 prósent íbúa landsbyggðarinnar. 23 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins eru mjög fylgjandi innleiðingu samanborið við 12 prósent íbúa landsbyggðarinnar. Hlutfall landsbyggðarbúa sem andvíg eru innleiðingu lækkar þar að auki um 9 prósentustig á milli mælinga.
Stuðningur eykst meðal kjósenda ríkisstjórnarflokkanna
Kjósendur Miðflokksins eru þeir sem helstir eru andvígir innleiðingu þriðja orkupakkans, þar af eru 75 prósent þeirra mjög andvíg. Alls eru 90 prósent þeirra mjög eða frekar andvíg.
12 prósent kjósenda Vinstri grænna voru mjög andvíg samanborið við 33 prósent kjósenda Framsóknar og 30 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Hins vegar eru 44 prósent kjósenda Vinstri grænna mjög eða frekar fylgjandi þriðja orkupakkanum og eykst hlutfallið þar með um 18 prósentustig frá síðustu könnun.
Stuðningur jókst einnig meðal kjósenda Framsóknar og mælist 34 prósent sem er 12 prósentustiga aukning á milli kannanna.
Stuðningur meðal stjórnarandstöðunnar jókst mest á meðal kjósenda Viðreisnar, þar sem hlutfallið er 74 prósent. Kjósendur Samfylkingar eru einnig hlynntir, það er um 73 prósent þeirra. 43 prósent kjósenda Pírata eru frekar eða mjög hlynnt þriðja orkupakkanum en 34 prósent mjög eða frekar andvíg.
39 prósent svarenda sem styðja ríkisstjórnina kveðjast fylgjandi innleiðingu en 38 prósent þeirra eru andvíg. Þeir sem ekki styðja ríkisstjórnina eru líklegri til að segjast vera andvíg innleiðingu, það er 53 prósent andvíg og 31 prósent fylgjandi.
Þeir svarendur sem hlynntir eru inngöngu í Evrópusambandið eru fremur fylgjandi, 69 prósent, en þeir sem eru andvígir inngöngu, það er 12 prósent þeirra.