Stjórn Arion banka hefur ráðið Benedikt Gíslason í starf bankastjóra. Hann mun hefja störf 1. júlí næstkomandi. Benedikt var varaformaður starfshóps stjórnvalda um afnám fjármagnshafta á árunum 2013 til 2016 en hóf í kjölfar þeirra starfa störf hjá Kaupþingi. Þar sat hann í stjórn á árunum 2016 til 2018. Hann hefur auk þess verið ráðgjafi Kaupþings í málefnum Arion banka og setið í stjórn bankans frá árinu 2018. Benedikt er verkfræðingur frá Háskóla Íslands.
Áður hafði Benedikt starfað hjá FBA (síðar Íslandsbanka), sinnti margvíslegum stjórnunarstörfum hjá Straumi-Burðarás, var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá FL Group og framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs MP banka.
Hann segir Arion banka vera gott fyrirtæki sem gegni mikilvægu hlutverki. „Ég þekki bankann vel og hlakka til kynnast honum og hans öfluga starfsfólki enn betur. Verkefnið framundan er að halda áfram að þróa starfsemi og þjónustu bankans og veita viðskiptavinum góða og nútímalega fjármálaþjónustu. Arion banki nýtur ákveðinnar sérstöðu á íslenskum fjármálamarkaði þegar horft er til stóru bankanna þriggja sem almenningshlutafélag skráð í kauphallir á Íslandi og í Svíþjóð.“
Þótti strax líklegastur
Þann 12. apríl síðastliðinn var greint frá því að bankastjóraskipti væru fyrir dyrum hjá Arion banka. Höskuldur H. Ólafsson, sem hafði gegnt starfinu í níu ár, væri að hætta. Höskuldur hefur síðan neitað því ítrekað að hann hafi verið rekinn eða að þrýst hafi verið á hann um að hætta. Þrálátur orðrómur hafði þó verið í gangi undanfarna mánuði um að hann yrði ekki mikið lengur í starfinu.
Kjarninn fjallaði ítarlega um stöðu Arion banka og ýmsar væringar í kringum bankann í fréttaskýringu þann 26. apríl síðastliðinn. Þar kom meðal annars fram að samkvæmt heimildum Kjarnans væri Benedikt ofarlega á blaði yfir næsta bankastjóra Arion banka. Til þess nyti hann trausts erlendu fjárfestingasjóðanna sem eiga enn stóran hlut í bankanum.
Kaupskil, félag í eigu Kaupþings, er enn stærsti eigandi Kaupþings með 20 prósent eignarhlut. Vogunarsjóðirnir Taconic Capital og Och-Ziff Capital, sem eru á meðal stærstu eigenda Kaupþings, eiga einnig 23,28 prósent hlut samanlagt. Þar á eftir koma Gildi lífeyrissjóður með 4,73 prósent eignarhlut og Stoðir hf., sem einu sinni hét FL Group, með 4,63 prósent eignarhlut.