Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi ræddi skýrslu embættisins um Íslandspóst á fundi fjárlaganefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun. Einnig voru viðstaddir fulltrúar fjármálaráðuneytisins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, sem og stjórn Íslandspósts.
Skúli Eggert segir í samtali við Kjarnann að lagðar hafi verið fyrir embættið spurningar er varða fjárhagsleg málefni Íslandspósts, meðal annars hvernig lánafyrirgreiðsla, sem gerð var á sínum tíma af hálfu ríkisins, horfir við og hvort fjárhagur félagsins muni breytast eftir lánið. Jafnframt hvort þörf sé á slíkri aðstoð aftur og hver framtíðarsýn félagsins sé.
Rekstur félagsins breyst á undanförnum árum
Enn fremur var, að sögn Skúla Eggerts, farið yfir á fundinum hvernig rekstur Íslandspósts hefði breyst á undanförnum árum en þar mætti meðal annars minnast á minnkandi póstmagn á borð við bréfasendingar. Pakkasendingar erlendis frá hefðu aftur á móti aukist og væri gjald fyrir þær bundið alþjóðasamningum, svo Íslandspóstur fær ekki háar greiðslur fyrir það sem kemur til að mynda frá Kína. Ríkisendurskoðandi bendir þó á að búið sé að leggja á ákveðið gjald fyrir sendingar erlendis frá.
Hann segir að stjórnvöld verði að huga að því hvernig þau vilji póstþjónustu á Íslandi í framtíðinni.
Skýrslan birt eins og hún var lögð fyrir Alþingi
Skúli Eggert segir að meðal annars hafi komið til tals á fundinum í morgun að óskað hefði verið eftir því að lagður yrði trúnaður á upplýsingar er varða stjórnendur Íslandspósts í skýrslunni. Þingmenn hafi aftur á móti lýst yfir óánægju sinni með að félag í ríkiseigu myndi falla undir slíkan trúnað.
„Við afhendum Alþingi allar upplýsingar,“ segir Skúli Eggert og bætir því við að skýrslan muni vera birt eins og hún var lögð fyrir þingið fyrir utan ákveðnar trúnaðarupplýsingar er varða einingaupplýsingar sem snerta samkeppnismál.
Kjarninn mun fjalla ítarlega um skýrsluna í dag.