Alls bárust Ferðamálastofu 1.038 kröfur vegna Gaman ferða en ferðaskrifstofan hætti rekstri í apríl síðastliðnum. Frestur til að gera kröfu í tryggingarfé ferðaskrifstofunnar rann út þann 20. júní síðastliðinn. Gaman ferðir var í 49 prósent hlut í eigu WOW air.
Hættu starfsemi í kjölfar gjaldþrots WOW air
Ferðaskrifstofan Gaman ferðir var stofnuð árið 2012 af Þór Bæring Ólafssyni og Braga Hinrik Magnússyni en árið 2015 keypti flugfélagið WOW air helmingshlut í ferðaskrifstofunni en fyrirtækin höfðu unnið saman frá stofnun WOW air.
Tveimur vikum eftir fall WOW air skilaði fyrirtækið inn ferðaskrifstofuleyfi sínu og hætti rekstri. Ferðaskrifstofan skipulagði að mestu leyti ferðir í kringum flug félagsins og í tilkynningu frá fyrirtækinu í apríl kom fram að ljóst væri að lausafjárstaða félagsins næstu sex mánuðina yrði ekki nægjanlega sterk til þess að réttlæta áframhaldandi starfsemi. Því hafi ákvörðunin verið tekin um að hætta rekstri.
Gaman ferðir báru lögbundnar tryggingar sem ferðaskrifstofum er skylt að hafa og gátu farþegar því leitað til Ferðamálastofu vegna endurgreiðslna.
Yfir þúsund kröfur bárust Ferðamálastofu en samkvæmt upplýsingum sem stofnunin veitti RÚV í apríl eru tæplega 200 milljónir króna í tryggingasjóði Gaman ferða. Í tilkynningu frá Ferðamálastofu segir að nú taki við yfirferð og vinnsla krafna hjá Ferðamálastofu en í ljósi fjöldans megi búast við að nokkurn tíma taki að fara yfir og taka afstöðu til þeirra. Því megi í fyrsta lagi búast við mál fari að skýrast með haustinu.