Heilt yfir virðist húsnæðisöryggi vera nokkuð mikið hér á landi en 85 prósent landsmanna telja sig búa við það. Það er þó ólíkt eftir því hvort að fólki búi í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði en einungis 51 prósent leigjenda telja sig búa við húsnæðisöryggi. Algengasta ástæða þess að fólk telur sig ekki búa við húsnæðisöryggi er vegna þess að fólk hefur ekki efni á leigu eða verð of hátt. Þetta kemur fram í nýrri viðhorfskönnun Íbúðalánasjóðs.
Öryrkjar búa við minni húsnæðisöryggi
Í nýrri könnun Íbúðalánasjóðs voru svarendur beðnir um að leggja mat á hversu sammála eða ósammála þeir væru fullyrðingunni: „Ég tel mig búa við húsnæðisöryggi.“ Í ljós kom að mun færri leigjendur telja sig búa við húnsæðisöryggi en húsnæðiseigendur. Niðurstöðurnar sýndu að einungis 51 prósent leigjenda var sammála fullyrðingunni samanborið við 94 prósent þeirra sem búa í eigin húsnæði.
Auk þess sýna niðurstöðurnar að nokkuð áberandi munur er á afstöðu fólks til húsnæðisöryggis eftir stöðu á vinnumarkaði. Þá töldu öryrkjar sig búa við marktækt minna húsnæðisöryggi en aðrir hópa, 64 prósent öryrkja töldu sig búa við húsnæðisöryggi samanborið við 86 prósent launþega í fullu starfi.
Þá kom einnig fram munur á afstöðu fólks eftir aldri, óháð öðrum breytum. Fólk á aldrinum 25 til 34 ára telur sig búa við minnst húsnæðisöryggi og aldurshópurinn 65 ára og eldri mest.
Þeir svarendur sem töldu sig ekki búa við húsnæðisöryggi voru beðnir að nefna helstu ástæðuna fyrir því. Algengasta ástæðan var sú að fólk hefði ekki efni á leigu eða verðið væri of hátt. Næstalgengasta orsökin var að um tímabundinn leigusamning væri að ræða eða eigandinn væri að selja húsnæðið.
16 prósent fullorðinna á leigumarkaði
Viðhorfskannanir sem Íbúðalánasjóður hefur gert síðustu ár benda til þess að um 16 prósent fullorðinna einstaklinga séu nú á leigumarkaði. Þá er ungt fólk hlutfallslega líklegra til þess að vera á leigumarkaði en 33 prósent fólks á aldrinum 18 til 24 ára eru á leigumarkaði samanborið við til að mynda 18 prósent fólks á aldrinum 35 til 44 ára.
Þegar horft er til stöðu á vinnumarkaði má sjá að námsmenn og öryrkjar eru hlutfallslega líklegri en aðrir hópar til þess að vera á leigumarkaði. Þá eru 27 prósent öryrkja á leigumarkaði og 33 prósent námsmanna samanborið við 15 prósent launþega í fullu starfi.
Tæplega þriðjungur leigjenda telja núverandi húsnæði ekki uppfylla þarfir
Þrátt fyrir vísbendingar um aukið framboð af leiguhúsnæði telja aðeins 10 prósent þjóðarinnar að það sé mikið framboð af íbúðarhúsnæði til leigu sem henti sér og sinni fjölskyldu. Þá telja 13 prósent þjóðarinnar að núverandi húsnæði uppfylli ekki allar helstu þarfir og helsta ástæðan var sú að íbúðin væri ekki nógu stór eða með nógu mörgum herbergjum. Alls voru það 29 prósent leigjenda sem töldu að núverandi húsnæði uppfyllti ekki þarfir samanborið við 8 prósent þeirra sem búa í eigin húsnæði.
Ennfremur telur meirihluti þjóðarinnar að það sé óhagstætt að leigja um þessar mundir eða alls 92 prósent. Samkvæmt könnuninni er fjárhagsstaða heimilisins marktækt verri hjá leigjendum en þeim sem búa í eigin húsnæði. Yfir 20 prósent þeirra sem eru á leigumarkaði segjast safna skuldum eða nota sparifé til þess að ná endum saman samanborið við einungis 7 prósent þeirra sem búa í eigin húsnæði.