Mikill meirihluti landsmanna hefur áhyggjur af hlýnun jarðar, samkvæmt nýrri könnun MMR. Þar sögðust alls 68 prósent aðspurðra hafa mjög miklar eða frekar miklar áhyggjur en einungis ellefu prósent kváðust hafa litlar áhyggjur.
Áhyggjur fólks eru mismunandi miklar eftir því hvaða stjórnmálaflokka það segist kjósa. Þannig hafa 96 prósent þeirra sem kjósa Samfylkinguna miklar áhyggjur af stöðu mála og 89 prósent þeirra sem kjósa Vinstri græn.
Þeir sem kjósa Miðflokkinn sjá hlutina aðeins öðrum litum. Þar segjast 39 prósent hafa miklar áhyggjur en 36 prósent litlar áhyggjur. Þingmaður flokksins, Birgir Þórarinsson, gerði umræðuna um að loftlagsmál væru af mannavöldum að umtalsefni á Alþingi fyrr í þessum mánuði. Í frásögn Stundarinnar af málflutningnum kom fram vilji Birgis til að sjónarmið þeirra vísindamanna sem telja loftlagsbreytingar ekki vera af mannavöldum yrðu kennd í grunn- og framhaldsskólum landsins.
Stuðningsmenn Flokks fólksins koma næstir í áhyggjuleysi, en 28 prósent þeirra hafa litlar áhyggjur af stöðu mála á meðan að 52 prósent hafa miklar áhyggjur.
Konur hafa meiri áhyggjur af hlýnun jarðar en karlar. Alls segjast 76 prósent þeirra hafa mjög eða frekar miklar áhyggjur af stöðunni en 60 prósent karla.
Áhyggjur af hlýnun jarðar voru hvað mestar hjá yngsta og elsta aldurshópnum. Alls sögðust 77 prósent fólks á aldrinum 18 til 29 ára hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur og 70 prósent aðspurðra sem voru 68 ára og eldri.
Þá voru íbúar höfuðborgarsvæðisins áhyggjufyllri en þeir sem búa á landsbyggðinni.