Framlög íslenska ríkisins, almennings og fyrirtækja á Íslandi til baráttu UNICEF fyrir börn hafa aldrei verið meiri en árið 2018. Vöxtur UNICEF á Íslandi milli ára var 10,2 prósent og aukning framlaga frá íslenska ríkinu á milli 2017 og 2018 hefur sjaldan verið meiri eða tæp 160 prósent. Þetta kemur fram í frétt UNICEF.
Árið 2018 gaf Ísland, ríki og landsnefnd, næst hæstu framlögin til UNICEF alþjóðlega, sé miðað við höfðatölu, í öðru sæti á eftir Noregi. Þetta var meðal þess sem kom fram á ársfundi UNICEF á Íslandi sem haldinn var í gær.
Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, segir þetta vera frábæran árangur og séu þau almenningi, fyrirtækjum og stjórnvöldum innilega þakklát fyrir þennan mikilvæga stuðning. „Það er auðvitað mjög gleðilegt að sjá þessi auknu framlög frá ríkinu til baráttu UNICEF alþjóðlega, sérstaklega þegar við berum okkur saman við þjóðir sem gefa mun hærri prósentu af vergri þjóðarframleiðslu til þróunarmála en Ísland. Þessi aukning gerir UNICEF kleift að ná til enn fleiri barna um allan heim.“
Á fundinum í gær kynnti Bergsteinn helstu niðurstöður ársins 2018. Þar bar einna hæst að söfnunarfé UNICEF á Íslandi var rúmar 730 milljónir króna árið 2018, sem er 10,2 prósent vöxtur milli ára. Alls kom 81 prósent af söfnunarfé frá heimsforeldrum, mánaðarlegum stuðningsaðilum sem styðja baráttu UNICEF um allan heim.
Auk þess studdi almenningur dyggilega við börn í Jemen á árinu, en rétt tæplega 30 milljónir söfnuðust fyrir neyðarhjálp UNICEF í Jemen. Metsala var síðan á sölum Sannra gjafa fyrir jólin, en landsmenn keyptu hjálpargögn á borð við bóluefni, teppi, hlý föt og vatnsdælur fyrir rúmlega 30 milljónir króna á árinu.