Sjö af átta umsækjendum um stöðu seðlabankastjóra, sem hæfisnefnd forsætisráðuneytisins taldi ekki „mjög vel hæfa“ til að gegna stöðunni, andmæltu mati nefndarinnar og telja verulega vankanta á málsmeðferð hennar. Umsækjendurnir telja meðal annars að jafnræðisreglan hafi verið brotin og segja nefndina ekki hafa framkvæmt heildstæðan samanburð. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Fjórir umsækjendur taldir mjög hæfir
Hæfisnefnd, skipuð af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, hefur metið umsækjendur um starf seðlabankastjóra. Formaður nefndarinnar er Sigríður Benediktsdóttir, en með henni í nefndinni eru Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, og Þórunn Guðmundsdóttir, hæstaréttarlögmaður og varaformaður bankaráðs, tilnefnd af bankaráði Seðlabanka Íslands. Það er forsætisráðherra sem að lokum skipar seðlabankastjóra, en Már Guðmundsson mun láta af störfum í sumar, eftir tíu ára starf sem seðlabankastjóri.
Kjarninn greindi frá því fyrr í júní að tólf umsækjendur um stöðu seðlabankastjóra hafi verið skipt niður í hæfisflokka; hæfa, vel hæfa, og mjög vel hæfa. Umsækjendur voru upphaflega 16, en Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi ráðherra og formaður Viðreisnar, umsókn sína til baka, en tveir aðrir umsækjendur, gerðu það líka, samkvæmt heimildum Kjarnans. Einn umsækjenda, sem var nemi, uppfyllti ekki skilyrði til að vera hæfur í starfið og er því ekki í flokkun eftir hæfi, hjá nefndinni.
Fjórir umsækjenda voru síðan taldir mjög vel hæfir. Það eru Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands, Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, Jón Daníelsson, prófessor við LSE í London, og Arnór Sighvatsson, ráðgjafi seðlabankastjóra og fyrrverandi aðalhagfræðingur og aðstoðarseðlabankastjóri. Allir hafa þeir doktorspróf í hagfræði.
Segja nefndina ekki hafa virt jafnræðisreglur
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa minnst sjö af þeim átta umsækjendum sem ekki voru metnir mjög vel hæfir til að gegna stöðu seðlabankastjóra andmælt mati hæfisnefndarinnar. Í fréttinni segir að þeir umsækjendur hafi furðað sig á því að nefndin hafi ekki tekið til greina þær miklu breytingar sem fyrirhugaðar eru með sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Þetta er sagður „verulegur ágalli á hæfnismatinu“ enda ljóst að starf seðlabankastjóra muni krefjast meiri stjórnunarhæfileika en áður. Þá telja þau sem mótmæla hæfismatinu að hæfisnefndin hafi hvorki virt jafnræðisreglur né gert heildstæðan samanburð á umsækjendum.
Benedikt Jóhannesson, einn þeirra sem dró umsókn sína stöðu seðlabankastjóra til baka, hefur einnig gagnrýnt vinnubrögð hæfisnefndarinnar og sagði hana vanrækja að horfa til þess við mat á umsækjendum að sameina eigi Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. „Í ljósi þess að meginverkefni nýs seðlabankastjóra verður að leiða breytingar á þessu mikilvæga sviði kom það mér í opna skjöldu þegar hæfisnefnd um stöðuna tjáði mér í upphafi viðtals að hún myndi aðeins miða sína umsögn við starfið eins og það hefur verið og ekki líta til þeirra breytinga sem boðaðar hafa verið,“ skrifar Benedikt í bréfi til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra.