Hæstiréttur hefur ómerkt úrskurð Landsréttar í deilu ALC við Isavia og vísað því aftur Landsréttar til löglegrar meðferðar. Þá telur Hæstiréttur að verulega hafi verið vikið frá réttri meðferð málsins.
Í fréttatilkynningu Isavia segir að með niðurstöðunni telji félagið að rétturinn sé fyrst og fremst að bregðast „við þeirri staðreynd að ALC kærði ekki úrskurð héraðsdóms til Landsréttar og meðferð málsins fyrir Landsrétti eftir það“.
Það að ALC hafi ekki kært úrskurð héraðsdóms til Landsréttar hafi falið í sér yfirlýsingu ALC um að félagið væri sammála kröfum og röksemdum Isavia. Við þær aðstæður hafi Landsrétti borið að verða við óbreyttum kröfum Isavia í málinu og hafna þegar af þeirri ástæðu innsetningu.
„Isavia er þeirrar skoðunar að dómur Hæstaréttar staðfesti efnislega afstöðu Landsréttar til túlkunar á beitingu 136. gr. laga um loftferðir. Málinu hefur nú verið vísað aftur til Landsréttar. Vænta má að Landsréttur taki það til meðferðar og staðfestir kröfur Isavia eins og þær lágu fyrir Landsrétti, auk ákvörðunar um málskostnað.
Flugvélin TF-GPA er áfram kyrrsett þar til niðurstaða fæst í málið. Í millitíðinni vill Isavia ítreka að eigandi vélarinnar getur fengið hana afhenta ef skuld WOW air er greidd eða ef gild trygging er lög fyrir henni,“ segir í tilkynningunni frá Isavia.
ALC fer yfir næstu skref
Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, segir í samtali við RÚV í dag, að nú sé verið að skoða hver næstu skref verði. Hann segist fagna því að nú sé komið á hreint að réttarfars tilraunir Isavia hafi verið tilgangslausar. Nú þurfi fyrirtækið að fara yfir það hver næstu skref verði.
Stjórnendur Isavia ákváðu þann 28. mars síðastliðinn að kyrrsetja flugvél sem WOW air hafði á leigu frá flugvélaleigufyrirtækinu ALC til að tryggja greiðslu á notendagjöldum upp á rúmlega tvo milljarða króna. Sama dag varð WOW air gjaldþrota.
ALC hafnaði greiðsluskyldu og krafðist þess að fá flugvélina afhenta. Héraðsdómur Reykjaness komst að þeirri niðurstöðu að Isavia væri heimilt að kyrrsetja þotuna sem tryggingu fyrir greiðslu skuldar vegna þessarar tilteknu vélar en ekki fyrir heildarskuldum WOW við Isavia.
ALC greiddi Isavia 87 milljónir, sem voru útistandandi skuldir vélarinnar og krafðist þess aftur að fá vélina afhenta. Isavia áfrýjaði úrskurðinum til Landsréttar, og krafðist þess að viðurkennt yrði að heimilt væri að halda þotunni til greiðslu á öllum skuldum. ALC krafðist þess að úrskurðinum yrði vísað frá Landsrétti, en til vara krafðist ALC þess að úrskurður héraðsdóms yrði staðfestur.
Landsréttur endurskoðaði forsendur úrskurðar héraðsdóms sem var svo staðfestur að niðurstöðunni til, en tók ekki efnislega á ágreiningi um málskostnað.