Forsætisráðherra hefur skipað nefnd um aðferðafræði við útreikning vísitölu neysluverðs. Skipun nefndarinnar er liður í samkomulagi ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins um að vinna markvisst að því að draga úr vægi verðtryggingarinnar. Benedikt Árnason, skrifstofustjóri forsætisráðuneytisins, mun leiða nefndina en hún á að ljúka störfum fyrir lok júní 2020.
Aðferðafræði við húsnæðislið vísitölunnar tekið til athugunar
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 30. nóvember 2017 segir að ríkisstjórnin muni taka markviss skref á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum en samhliða þeim verði ráðist í mótvægisaðgerðir til að standa vörð um möguleika ungs fólks og tekjulágra til að eignast húsnæði. Auk þess segir að sérstök áhersla verði lögð á að gæta efnahagslegs stöðugleika. „Ríkisstjórnin vill enn fremur skapa hvata og stuðning til þess að heimili sem það kjósa geti breytt verðtryggðum lánum í óverðtryggð,“ segir í sáttmálanum.
Í apríl síðastliðnum voru aðgerðir ríkisstjórnarinnar til stuðnings lífskjarasamningum aðila vinnumarkaðarins kynntar. Þar á meðal er aðgerð um að draga úr vægi verðtryggingar og birt var yfirlýsingríkisstjórnarinnar um þau markvissu skref sem tekin verða á gildistíma kjarasamninganna til afnáms verðtryggingar á lánum.
Liður í þeirri vinnu er skipun nefndarinnar en verkefni hennar er að skoða aðferðafræði við útreikning vísitölu neysluverðs út frá alþjóðlegum samanburði og leita álits erlendra sérfræðinga. Meðal annars verður aðferðafræði við húsnæðislið vísitölunnar tekin til athugunar auk svokallaðs vísitölubjaga.
Nefndina skipa:
- Benedikt Árnason, forsætisráðuneyti, formaður
- Dagný Ósk Aradóttir, tilnefnd af BSRB
- Georg Brynjarsson, tilnefndur af BHM
- Hannes G. Sigurðsson, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins
- Heiðrún Erika Guðmundsdóttir, tilnefnd af Hagstofu Íslands
- Henný Hinz, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands
- Karen Á. Vignisdóttir, tilnefnd af Seðlabanka Íslands
- Oddur Jakobsson, tilnefndur af Kennarasambandi Íslands
- Sigurður Páll Ólafsson, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneytinu
- Sigurður Á. Snævarr, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.