Ferðamönnum hefur fækkað mikið á undanförnum mánuðum og greint hefur verið frá því að mörg ferðaþjónustufyrirtæki eigi erfitt uppdráttar. Aftur á móti virðist róðurinn í ferðaþjónustu ekki vera jafn þungur og óttast var en nýjustu tölur sýna að nú dvelja ferðamenn lengur á landinu og eyða meira. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Arion banka á stöðu ferðaþjónustunnar.
Varnarsigur fyrir íslenska ferðaþjónustu
Í greiningu Arion banka kemur fram að í maí síðastliðnum hafi verið minni samdráttur í kortaveltu en í fjölda ferðamanna. Kortavelta dróst saman um 13,1 prósent á milli ára en ferðamönnum fækkaði á sama tíma um 23,6 prósent, samkvæmt tölum Rannsóknarseturs verslunar. Þá segir í greiningu bankans að samkvæmt uppfærðum tölum hafi heildarkortaverslun dregist saman um 0,7 prósent, í krónum talið, en 4,5 prósent aukning var í kortasölu í apríl.
Ferðamönnum fækkaði til samanburðar um 18,5 prósent í apríl og 23,6 prósent í maí. Í greiningu Arion banka segir að það var viðbúið að kortavelta á hvern ferðamenn í krónum talið myndi aukast sökum gengisveikingar krónunnar en hversu mikil aukningin virðist vera sé óvænt gleðitíðindi. „Að því gefnu að þetta sé endanleg niðurstaða um kortanotkun ferðamanna þá verður svo lítill samdráttur í maí og vöxtur í apríl að teljast mikil varnarsigur fyrir íslenska ferðaþjónustu
Ennfremur hefur eyðsla hvers og eins ferðamanns aukist á milli ára. Hver ferðamaður ráðstafaði 28 prósent fleiri krónum hér á landi í apríl en fyrir ári síðan og 30 prósent fleiri kónum í maí en kortavelta á hvern ferðamann hefur aldrei verið jafn mikil og í maí.
„Ekki nóg með það, þá sýna tölurnar að hver og einn ferðamaður ráðstafaði mun meiru í sinni eigin mynt en áður, þróun sem skiptir tekjusköpun þjóðarbúsins gríðarlega miklu máli,“ segir í greiningunni. Í apríl ráðstafaði hver ferðamaður 13 prósent meiru í eigin mynt en fyrir ári síðan og 15 prósent meira í maí.
Spánverjar og Bandaríkjamenn eyða mest
Þá hefur kortavelta Spánverjar og Bandaríkjamenn aukist mest. Hver Spánverji eyddi rúmlega 31 prósent fleiri evrum í apríl og maí samanlagt en árið á undan. Þá varði hver Bandaríkjamaður tæplega 27 prósent fleiri dollurum í maí og apríl. Það munur um þessa eyðsluaukningu Bandaríkjamanna þar sem fimmti hver ferðamaður sem heimsótt hefur Ísland á þessu ári er Bandaríkjamaður.
Enn fremur hefur kortavelta Breta og Rússa aukist töluvert á milli ára. Bretland er næst mikilvægasti markaður íslenskrar ferðaþjónustu í höfðatölu ferðamanna talið, á eftir Bandaríkjunum, og því segir í greiningu Arion banka að það sé fagnaðarefni að sjá svo mikla aukningu í kortaveltu hvers og eins Breta, mælt í pundum. Saman eru breskir og bandarískir ferðamenn rúmlega 40 prósent allra ferðamanna er sótt hafa landið heim það sem af er ári.
Hver ferðamaður dvelur lengur á landinu
Auk þessarar auknu eyðslugleði ferðamanna þá hefur dvalartími ferðamanna á landinu lengst. Heildargistinóttum fækkaði, skráðum og óskráðum, um rúm 9 prósent í maí á meðan erlendum ferðamönnum fækkaði um 23,6 prósent. Gistinóttum á hótelum á höfuðborgarsvæðinu, Austurlandi og Norðurlandi fjölgaði hins vegar í maí, og samanlagðar gistinætur erlendra ferðamanna á hótelum fækkaði aðeins um 1 prósent milli ára.
Þá má sjá ef skráðar og óskráðar eru gistinætur teknar saman og deilt niður á fjölda ferðamanna að hver ferðamaður dvaldi mun lengur á landinu í apríl og maí en fyrir ári síðan. Þannig var dvalartíminn 19,6 prósent lengri í apríl og 18,7 prósent í maí, sem er nálægt sólarhrings lengri dvalartími.
Erlend flugfélög fljúga sjaldnar í viku til landsins
Að mati Arion banka hefur fall WOW air líklega haft áhrif á þessa breytta hegðun ferðamanna. Samkvæmt könnun Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna dvöldu ferðamenn með WOW air skemur en aðrir ferðamenn og eyddu minna að meðaltali en til dæmis ferðamenn með Icelandair. Þá flutti WOW air hlutfallslega fleiri ferðamenn sem stöldruðu aðeins í skamma stund á landinu án þess að gista.
Í kjölfar gjaldþrots WOW air jókst vægi erlendra flugfélaga í flugframboði landsins en erlend flugfélög fljúga alla jafna sjaldnar í viku til landsins. Auk þess segir í greiningu bankans að samsetning farþega með Icelandir hafi einnig breyst. Að mati bankans gætu þetta verið þáttur í aukinni eyðslugleði og lengri dvalartíma ferðamanna „Hvað svo sem veldur er ljóst að tölurnar eru virkilega jákvæðar fyrir íslenska ferðaþjónustu og íslenskan þjóðarbúskap í heild sinni,“ segir að lokum í greiningunni.