Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir Sjálfstæðisflokkinn ekki hafa nægjanlegan stuðning í baklandinu, ekki núna og ekki á næstu árum, til þess að geta borið á framkvæmd EES-samnings í ríkisstjórn. Hún segir að ritstjórar Morgunblaðsins ýti undir sundrung í flokknum þegar kemur að þriðja orkupakkanum og flokkurinn sé nú klofinn. Þetta kemur fram í aðsendri grein Þorgerðar Katrínar í Fréttablaðinu í dag.
Spotta og hæða formanninn
Í greininni sem ber yfirskriftina „Ræður Sjálfstæðisflokkurinn ekki við EES?“ skrifar Þorgerður Katrín að við Sjálfstæðisflokknum blasi ein grimmustu innanflokksátök sem sögur fari af í áratugi. Hún segir ritstjóra Morgunblaðsins, Davíð Oddsson og Harald Johannessen, hafa farið fyrir þeirri fylkingu sem andvíg er innleiðingu þriðja orkupakkans og þeir staðhæfi að þingmenn sem styðja málið eigi lítinn sem engan stuðning í röðum almennra flokksmanna og forystufólks í flokksfélögum.
Þá segir Þorgerður Katrín að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins sé í vandræðum þar sem afturhaldsöflin í Sjálfstæðisflokknum séu harður andstæðingur. Auk þess segir hún ritstjórana spotta og hæða Bjarna með því að benda í sífellu að hann hafi verið á móti málinu í byrjun en sé því fylgjandi núna.
Segir þessi átök marka þáttaskil í stjórnmálasögunni
Jafnframt segir Þorgerður Katrín að ritstjórarnir hafi sérstaklega beitt sér gegn Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
„Athyglisvert er að ritstjórarnir hafa kappkostað að lítillækka ritara og varaformann Sjálfstæðisflokksins sem hafa verið öflugir talsmenn innleiðingar og alþjóðasamstarfs,“ skrifar hún. „Þær eru sagðar svo óskýrar í hugsun, ungar og óreyndar að engum hefði á árum áður dottið í hug að fela slíku fólki trúnaðarstörf af þessu tagi.“
Að mati Þorgerðar Katrín hafa hins vegar forystukonur Sjálfstæðisflokksins sýnt að málefnalega standi þær feti framar en margir þeir karlar sem lengst hafa gegnt æðstu forystuhlutverkum í flokknum.
Hún segir aftur á móti að þessu „málefnalega og þróttmikla fólki“ hafi ekki tekist að hrekja fullyrðingar ritstjóra Morgunblaðsins að þorri flokksmanna og forystumanna flokksfélaga standi eins og klettur gegn þingmönnunum. „Að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi ekki baklandið með sér í orkupakkamálinu. En það er einmitt sá veruleiki sem veldur því að þessi átök marka þáttaskil í stjórnmálasögunni,“ segir Þorgerður Katrín.
Munu ekki hafa nægan stuðning til að geta borið ábyrgð á framkvæmd EES-samningsins
Jafnframt segir Þorgerður Katrín í greininni að þó það sé ljóst að þingmenn Sjálfstæðisflokksins muni samþykkja innleiðingu orkupakkans í ágúst þá muni í kjölfarið ný tilefni verða fundin til þess að viðhalda átökunum um EES-samninginn með tilheyrandi þrýstingi. Að hennar mati er það ólíklegt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins muni standa þann þrýsting.
„Á síðustu öld var Sjálfstæðisflokkurinn óumdeilanlega kjölfestan þegar kom að utanríkispólitík landsins. Þetta eru því einhver mestu málefnalegu hamskipti sem orðið hafa í einum stjórnmálaflokki. Kjarni málsins er sá að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki og munu ekki á næstu árum hafa nægjanlegan stuðning í baklandinu til þess að geta borið ábyrgð í ríkisstjórn á framkvæmd EES-samningsins. Það sjá allir, “ segir Þorgerður Katrín.
Að lokum segir hún að nú, líkt og fyrir þremur árum síðan þegar Viðreisn var stofnuð og allar götur síðan, standi þeir frjálslyndu í flokknum frammi fyrir því „að þurfa að kyngja pólitísku erindi sínu til þess að friða baklandið í þverklofnum flokki – eða leita einfaldlega á önnur mið.“