Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir í stöðufærslu á Facebook starfsmannaleigur vera „eitt af ömurlegum börnum hins ægilega „frelsis“ og óheftrar gróðadýrkunar sem fengið hafa að unga út afkvæmum um alla veröld, gróðasjúkum til skemmtunnar og yndisauka og öllum öðrum til erfiðleika og ama.“
Málið sem vísað er til er stefna á hendur fyrirtækisins Eldum rétt og Mönnum í vinnu. Þeim er stefnt til greiðslu bóta vegna nauðungarvinnu, að því er kemur fram í tilkynningu á vegum Eflingar. Samkvæmt tilkynningunni keypti Eldum rétt vinnuafl hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu í janúar og hafi þar með borið ábyrgð á að kjör verkamannanna og aðstæður væru sómasamlegar. Lögsókn gegn fyrirtækinu og framkvæmdastjóra þess hefur nú verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Mennirnir leituðu til ASÍ og lýst er því hvernig þeim hefði verið hótað uppsögn og brottrekstri úr húsnæðinu sem þeir dvöldu í og líkamsmeiðingum ef þeir töluðu við fjölmiðla eða stéttarfélög. Húsnæðið var enn fremur iðnaðarhúsnæði og ekki útbúið sem mannabústaður. Síðasta útborgunin hafi í sumum tilvikum verið nærri núlli vegna frádráttar, að því er kemur fram í tilkynningunni.
Vinnuafl á afsláttarverði
Í stöðufærslu sinnir segir Sólveig að alþjóðavæðing á forsendum kapítalisma gera það að verkum að hægt sé að sækja vinnuafl á „afsláttarverði“ og enn meiri afslætti ef hægt sé að koma klónum í fólk sem tali ekki tungumál landsins og ekki þekkingu á lögum og reglum sem gildi um kjör og aðbúnað vinnuaflsins.
Í stöðufærslu sinni spyr Sólveig hver sé ábyrgð Eldum rétt. Hún segir augljósa áhættu að flytja inn vinnuafl í gegnum starfsmannaleigu þar sem slík fyrirtæki geti verið „skálkaskjól undirborgana, misneytingar og jafnvel mansals. Af þeim sökum var leidd í lög „keðjuábyrgð“, svo fyrirtæki gætu ekki firrt sig ábyrgð á aðbúnaði starfsfólks síns með því að hafa það formlega í vinnu hjá öðrum.“ Þar af leiðandi telur Sólveig Eldum rétt bera ábyrgð á að starfsmennirnir hefðu það ekki verr en annað starfsfólk.
Hún segist dómsmálið til að mynda snúast um vanvirðandi meðferð og þvingunar- eða nauðungarvinnu sem verkamennirnir sættu. Sólveig gagnrýnir starfsmannaleigur harðlega og segir þær „fela í sér frávik frá þeirri meginreglu að starfsmaður sé í beinu ráðningarsambandi við atvinnurekanda, og setja á milli þeirra þriðja aðila sem tekur skerf af laununum í sinn vasa“ sem hafi opnað á leið að grafa undan kaupi og kjörum á íslenskum vinnumarkaði. Þá sé fólk gagngert sótt frá fátækum svæðum sem alþjóðavæðingin hafi leikið grátt og þar sem enskukunnátta væri mjög takmörkuð. Engar kröfur væru gerðar á fyrirtæki að kynna starfsfólki réttindi sín.
Starfsmannaleigur eru eitt af ömurlegum börnum hins ægilega "frelsis" og óheftrar gróðadýrkunar sem fengið hafa að unga...
Posted by Sólveig Anna Jónsdóttir on Wednesday, July 3, 2019