Færsluhirðinum Valitor, sem er dótturfélag Arion banka, hefur fallist á að greiða Datacell og Sunshine Press Productions, SPP, 1,2 milljarða króna í skaðabætur fyrir að slíta samningi um greiðslugátt fyrir söfnunarfé til Wikileaks árið 2011 fyrirvaralaust. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur verið gengið frá samkomulagi þess efnis sem er í samræmi við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í apríl síðastliðnum.
Niðurstaðan kom Valitor á óvart
Fjölmiðillinn Wikileaks tók við styrkjum fyrir starfsemi sína í gegnum greiðslugátt sem Datacell og Sunshine Press Production (SPP) ráku. Greiðslugáttin var opnuð 7. júlí 2011 en degi síðar sleit Valitor samningnum fyrirvaralaust. Með dómi árið 2013 komst Hæstiréttur að því að riftunin hafi veri ólögmæt, og hefur síðan verið deilt um skaðann og skaðabætur vegna fyrrnefndrar aðgerðar.
Gáttin var alls lokuð í 617 daga og dómkvaddir matsmenn mátu tjónið á 3,2 milljarða króna en dómarar í málinu töldu að veikleikar væru á þeim forsendum sem tölfræðilegir útreikningar matsmanna byggðust á og því væri ekki unnt að leggja niðurstöðu matsgerðarinnar til grundvallar sem sönnunargagn um umfang tjónsins. Krafa um vexti og dráttarvexti aftur í tímann kom ekki til álita en krafa Datacell og SPP í málinu hljóðaði upp á 8,1 milljarð.
Valitor sendi frá sér tilkynningu í kjölfar dómsins í apríl og sagði félagið að niðurstaða Héraðsdóms kæmi mjög á óvart og að fyrirtækið myndi fara yfir dómsniðurstöðuna og væntanlega áfrýja málinu til Landsréttar. Nú er hins vegar ljós að ekki verður af því þar sem félagið hefur fallist á að greiða Datacell og SPP 1,2 milljarða króna í bætur
Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur fram að Landsbankinn muni þurfa að greiða hluta þeirrar fjárhæðar, eða samtals um 456 milljónir króna. Ástæðan er sú að þegar Landsbankinn seldi eignarhlut sinn í Valitor til Arion banka í desember 2014 gekkst Landsbankinn í ábyrgðir fyrir 38 prósentum af þeim upphæðum sem Valitor kynni að þurfa að greiða vegna fjögurra mála. Þeirra á meðal var málarekstur Datacell og Sunshine Press Productions gegn Valitor.