Eftir að ljóst varð að Christine Lagarde verður næsti yfirmaður Seðlabanka Evrópu, liggur fyrir að það losnar um stöðu framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), sem Lagarde hefur gegnt frá árinu 2011.
Samkvæmt heimildum Bloomberg vilja háttsettir embættismenn og leiðtogar í Evrópu fá Mark Carney, seðlabankastjóra Bretlands, til að taka við starfinu hjá AGS.
Hann hefur mikla alþjóðlega reynslu, en hann var seðlabankstjóri í Kanada áður en hann tók við starfinu hjá Englandsbanka.
Þrátt fyrir að Carney sé frá Kanada þá er hann með breskt og írskt ríkisfang, og getur því uppfyllt skilyrði um að framkvæmdastjóri AGS komi frá Evrópu.
Carney hefur varað við áhrifum af Brexit og hefur hvatt bæði Evrópusambandið og bresk stjórnvöld til þess að ná saman um samning útgöngu Bretlands. Nú er stefnt að útgöngu 31. október, en sé mið tekið af reynslu síðustu mánaða og ára þá gæti farið svo að það frestist enn frekar.