Dögg Pálsdóttir, lögmaður Læknafélags Íslands og fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það sé mikilvægt að læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn þekki vel rétt sinn þungurnarrofs til að fylgja samvisku sinni og sannfæringu þegar kemur að framkvæmd þungunarrofs.
Hún segir að þó að frumvarpið um þungunarrof hafi verið samþykkt á Alþingi þá séu enn skiptar skoðanir í samfélaginu um að lögfesta skilyrðislausan rétt konu til að rjúfa þungun fram að lokum 22. viku. Þetta kemur fram í pistli Daggar í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.
Ýmsum þykir þær breytingar hafa þurft meiri almenna umræðu
Í pistlinum fjallar Dögg um nýlega samþykkt lög um þungunarrof. Helstu nýmæli í lögunum eru þau að konu er nú veitt fullt ákvörðunarvald um það hvort hún elur barn fram að lokum 22. viku þungunar, óháð því hvaða ástæður liggja að baki þeim vilja hennar.
Dögg segir að þó að frumvarpið um þungunarrof hafi verið samþykkt af meirihluta Alþingis séu enn skiptar skoðanir í samfélaginu um að lögfesta skilyrðislausan rétt konu til að rjúfa þungun fram að lokum 22. viku. „Ýmsum þykir að þær breytingar sem í hinum nýju lögum felast hefðu þurft meiri almenna umræðu, ekki síst um það hvenær líta eigi svo á að fóstrið eigi sjálfstæðan rétt til lífs,“ skrifar Dögg.
Hún bendir á að í umsögn Siðfræðistofnunar þar sem fram kemur að stofnun telji það varasamt að heimilda þungunarrof allt að 22. viku því þá geti fóstur orðið „lífvænlegt utan fóstur líkama móður“. Auk þess nefnir hún að hvergi á Norðurlöndunum sé svo rúmur frestur til þungunarrofs.
Fæðing barns í öllum tilvikum hættulegri en þungunarrof
Þá segir í pistlinum að við umfjöllun velferðarnefndar um þungurrofsfrumvarpið hafi komið fram sú spurning um hver staða heilbrigðisstarfsmanns væri þegar kona óskar eftir þungunarrofi þrátt fyrir ráðleggingar læknis um annað eða þegar framkvæmd þungunarrofs stangast á við trúarleg eða siðferðileg viðhorf hans.
Í nefndaráliti meirihluta velferðarnefndar er bent á 14. grein laga um heilbrigðisstarfsmenn. Þar segir að að heilbrigðisstarfsmanni sé heimilt að skorast undan störfum sem stangast á við trúarleg eða siðferðileg viðhorf hans, enda sé tryggt að sjúklingur fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Þá segir í álitinu að í umræðu nefndarinnar hafi verið bent á að fæðing barns væri í öllum tilvikum hættulegri en þungunarrof og því væru rök heilbrigðisstarfsmanns fyrir því að víkjast undan því að framkvæma þungunarrof með vísan til þess að lífi konu væri stefnt í hættu afar takmörkuð.
Meiri hlutinn tekur undir þetta sjónarmið en bendir þó á að erfitt geti verið að skikka heilbrigðisstarfsmann til þess að veita þjónustu sem stangast á við trúarleg eða siðferðileg viðhorf hans. Því ákvað meirihlutinn að leggja fram breytingartillögu þess efnis að bætt yrði við nýrri málsgrein við 4. grein laganna um það að skorist heilbrigðisstarfsmaður undan skyldu sinni skuli réttur konunnar eigi síður tryggður.
Í grein Daggar segir að ekki sé nánar skýrt hvorki í nefndaráliti né framsöguræðu framsögumanns velferðarnefndar með hvaða hætti það skuli gert. „Líklega er því treyst að á hverjum tíma séu starfandi heilbrigðisstarfsmenn sem fyrirvaralaust eru tilbúnir til að framkvæma þungunarrof án tillits til ástæðna fyrir þungunarrofi og jafnvel þó komið sé að lokum 22. viku meðgöngu.“ segir í greininni.
Viðurkennt að læknar geti skorast undan að framkvæma aðgerð af trúarlegum eða siðferðislegum ástæðum
Í pistli Daggar er jafnframt fjallað um að læknalögin frá 1988 en í athugasemdum með frumvarpinu, því sem varð að læknalögunum frá 1988, kemur fram að mikilvægt sé að velta fyrir sér spurningunni um það hvort og í hvaða tilvikum lækni sé heimilt að skorast undan að framkvæma aðgerð.
„Fara beri mjög varlega í skýringar en almennt sé viðurkennt, þó það styðjist ekki við ótvíræðan lagabókstaf, að læknar geti aldrei skorast undan að framkvæma aðgerð sé um að ræða aðgerð í lækningaskyni. Það sé hins vegar viðurkennt að læknar geti skorast undan að framkvæma aðgerð af trúarlegum eða siðferðislegum ástæðum sé markmið aðgerðarinnar ekki lækning í þröngri merkingu þess orðs, t.d. ófrjósemisaðgerð eða fóstureyðing af félagslegum ástæðum.“ Þá segir í pistlinum að frá því að þessi heimild hafi verið lögfest í læknalögunum frá 1988 þá hafi hún verið talin gilda um allar löggiltar heilbrigðisstéttir.
Auk þess segir í greininni að í Codex Ethicus Læknafélags Íslands segir að það sé meginregla að lækni sé frjálst að hlýða samvisku sinni og sannfæringu. „Hann getur, ef lög og úrskurðir bjóða ekki annað, synjað að framkvæma læknisverk, sem hann treystir sér ekki til að gera eða bera ábyrgð á eða hann telur ástæðulaust eða óþarft.“ Dögg ítrekar að nefndarálit meirihluta velferðarnefndar um að fæðing sé í öllum tilfellum hættu meiri en þungunarrof breyti þar engum um.
Að lokum bendir Dögg á að lög um þungunarof öðlist gildi 1. september næstkomandi og ítrekar því mikilvægi þess að heilbrigðisstarfsmenn þekki rétt sinn gagnvart framkvæmdum þungunarrofs. „Lög um þungunarrof öðlast gildi 1. september nk. Það er því mikilvægt að læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn þekki vel rétt sinn gagnvart framkvæmd þungunarrofs til að fylgja samvisku sinni og sannfæringu,“ segir Dögg.
Meirihluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði gegn þungunarrofsfrumvarpinu
Þungunarrofsfrumvarpið var samþykkt í maí síðastliðnum með 40 atkvæðum gegn 18 en þrír greiddu ekki atkvæði. Meirihluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði gegn þungunarrofsfrumvarpinu, alls átta, tveir sátu hjá og fjórir sögðu já. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins og fjármála- og efnahagsráðherra var á meðal þeirra sem greiddi atkvæði gegn frumvarpinu.