Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur fellt úrskurð í kærumáli Auðuns Freys Ingvarssonar, fyrrum framkvæmdastjóra Félagsbústaða, gegn Morgunblaðinu vegna fréttar af starfslokum hans þann 4. mars síðastliðinn. Niðurstaða siðanefndar er að Morgunblaðið hafi brotið gegn siðareglum og að brotið sé ámælisvert.
Snertir mikilsverða persónulega hagsmuni
Frétt um starfslok Auðuns Freys var birt í Morgunblaðinu hinn 4. mars 2019 og á vefnum mbl.is. Málið var kært til siðanefndar þann 5. apríl síðastliðinn og kærandi er Auðunn Freyr. Í kærunni eru gerðar alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð hins kærða blaðamanns.
Kærandi segir að hann hafi ekki haft samband við sig við vinnslu fréttarinnar og í fréttinni hafi ranglega verið haft eftir kæranda hvers vegna hann hefði látið af störfum. Jafnframt segir í kærunni að vitnað sé til eins ónafngreinds heimildarmanns og látið líta svo út að sá tali fyrir hönd alls starfsfólks. Þá segir kærandi að staðreyndunum sé snúið á hvolf í tilvitnun til trúnaðarskýrslu, sem unnið hafi verið fyrir Félagsbústaði. Loks gerir kærandi sérstaka athugasemd við að í upphafi fréttarinnar sé vísað til þess að „megn ónægja“ hafi verið með störf hans.
Í umfjöllun siðanefndarinnar segir að þegar litið er til þess að umfjöllunin snerti mikilsverða persónulega hagsmuni kæranda þá er það álit Siðanefndar að hinn kærði blaðamaður hafi ekki vandað upplýsingaöflun sína og ekki sýnt fyllstu tillitsemi í máli eins og 3. gr. siðareglna býður.
Auk þess segir í umfjölluninni að ritstjórn Morgunblaðsins hafi ekki brugðist við réttmætri kvörtun kæranda þegar hann vakti athygli hennar á því að blaðamaður hefði ekki haft samband við hann við vinnslu fréttarinnar, með því að gera strax grein fyrir sjónarmiðum kæranda í blaðinu eða birta grein þá sem hann óskaði eftir að birt yrði. „Ritstjórnin sýndi því kæranda ekki fyllstu tillitsemi svo sem ætlast verður til og 3. gr. siðareglna boðar. “
Í úrskurðinum segir að hinir kærðu Baldur Arnarsson, blaðamaður, og ritstjórn Morgunblaðsins teljist hafa brotið siðareglur BÍ og að brotin séu ámælisverð.