Nýir hluthafar hafa bæst við hluthafahóp Kjarnans miðla ehf., útgáfufélags Kjarnans og Vísbendingar. Um er að ræða annars vegar Úlfar Erlingsson og Charlottu Maríu Hauksdóttur og hins vegar eignarhaldsfélagið Vogabakka ehf., í eigu Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar. Hvor um sig hefur keypt 4,67 prósent hlut í félaginu.
Seljandi hlutanna eru Kjarninn miðlar sjálfir, en félagið átti 6,25 prósent hlut í sjálfum sér. Auk þess hefur hlutafé í félaginu verið aukið lítillega. Nýtt hlutafé verður nýtt til að fjölga stöðugildum hjá Kjarnanum og þar með styrkja starfsemi hans. Fyrir skemmstu var greint frá ráðningu Eyrúnar Magnúsdóttur sem nýs framkvæmdastjóra Kjarnans miðla og von er á frekari styrkingu á næstu misserum.
Fjölmiðlanefnd hefur verið tilkynnt um breytingar á eigendahópi Kjarnans miðla líkt og lög gera ráð fyrir.
Tekjur Kjarnans miðla jukust um 24,5 prósent á árinu 2018 samkvæmt ársreikningi. Helmingur þeirra kemur úr Kjarnasamfélaginu í formi styrkja frá lesendum Kjarnans. Hægt er að ganga til liðs við það og styrkja sjálfstæða og gagnrýna blaðamennsku með því að smella á hlekkinn í þessari frétt.
Rekstrarniðurstaða síðasta árs var neikvæð um 2,5 milljónir króna en að teknu tilliti til einskiptiskostnaðarliða sem féllu til í upphafi síðasta árs var rekstur félagsins jákvæður og sjálfbær. Eigið fé Kjarnans miðla um síðustu áramót var 11,2 milljónir króna.
Kjarninn miðlar er fjölmiðlafyrirtæki sem var stofnað 2013, og er því sex ára um þessar mundir. Það rekur fréttavefinn Kjarninn.is, gefur út daglegan morgunpóst, stendur að opna umræðuvettvangnum Leslistanum og heldur úti hlaðvarpsþjónustu. Þá gefur Kjarninn út Vísbendingu, vikurit um viðskipti, efnahagsmál og nýsköpun, og ensk fréttabréf.
Kjarninn er einnig í samstarfi við önnur fjölmiðlafyrirtæki um framleiðslu á fréttatengdu efni. Helstu samstarfsaðilar eru sjónvarpsstöðin Hringbraut og Birtingur, vegna útgáfu á vikulega fríblaðinu Mannlífi.
Ritstjórnarstefna Kjarnans er að leggja áherslu á gæði og dýpt í umfjöllunum sínum.
Hluthafar Kjarnans miðla ehf.:
- HG80 ehf. í eigu Hjálmars Gíslasonar 17,68%
- Miðeind ehf. í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar 17,21%
- Birna Anna Björnsdóttir 11,80%
- Magnús Halldórsson 11,32%
- Þórður Snær Júlíusson 10,01%
- Hjalti Harðarson 7,59%
- Fagriskógur ehf. í eigu Stefáns Hrafnkelssonar 4,67%
- Milo ehf. í eigu Gumma Hafsteinssonar og Eddu Hafsteinsdóttur 4.67 %
- Vogabakki ehf. í eigu Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar 4,67%
- Charlotta María Hauksdóttir og Úlfar Erlingsson 4,67%
- Birgir Þór Harðarson 2,37%
- Jónas Reynir Gunnarsson 2,37%
- Fanney Birna Jónsdóttir 0,93%