Rúmlega fimm þúsund heimili fengu fjárhagsaðstoð sveitarfélaga árið 2018 sem er 2,5 prósenta fækkun frá árinu áður. Fjöldi heimila sem fá fjárhagsaðstoð helst í hendur við þróun atvinnuleysis, að því er kemur fram í greiningu Hagstofunnar.
Samkvæmt greiningu Hagstofunnar hækkuðu útgjöld sveitarfélaganna vegna fjárhagsaðstoðar um 1,6 prósent sé miðað við fast verðlag, eða um 74 milljónir króna. Meðalmánaðargreiðslur fjárhagsaðstoðar voru 136.242 krónur sem er um þúsund krónu lækkun frá árinu áður.Lengd fjárhagsaðstoðar árið 2018 var 4,8 mánuðir en 4,5 mánuðir árið áður.
2,3 prósent þjóðarinnar bjuggu á heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð árið 2018, eða 8.206 manns og þar af 2.710 börn. 9.461 heimili fékk félagslega heimaþjónustu og tæplega fimm af hverjum sex heimilum voru heimili aldraðra sem er tæplega fimm prósenta aukning frá árinu 2017.