Evrópusambandið samþykkti síðasta haust reglugerð sem gerir seljendum vöru og þjónustu á netinu skylt að veita öllum neytendum rétt til viðskipta á Evrópska efnahagssvæðinu. Áður en reglugerðin tekur gildi hér á landi þarf að innleiða þær í EES-samninginn. Stefnt er að því að leggja reglugerðina fyrir Alþingi næsta vor, samkvæmt svari atvinnuvegaráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins.
Frábært fyrir íslenska neytendur
Reglugerð Evrópusambandsins tók gildi í desember síðastliðnum og drög að ákvörðun liggur nú fyrir innan sameiginlegu EES- nefndarinnar en nefndin er helsti samstarfsvettvangur aðila samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Hlutverk nefndarinnar er að tryggja virka framkvæmd EES-samningsins og taka ákvarðanir um hvaða regluverk Evrópusambandsins skuli teknar upp í viðauka EES-samningsins og innleiddar í EFTA/EES-ríkjunum. Fréttablaðið greinir frá því í dag að samkvæmt svari atvinnuvegaráðuneytisins, við fyrirspurn blaðsins, er stefnt að því að leggja málið fyrir Alþingi næsta vor.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir reglugerðina mjög mikla réttarbót fyrir Íslendinga „Þetta er bara frábært fyrir íslenska neytendur því að þá hafa allir á efnahagssvæðinu aðgengi að vörum á sama verði. Þá er ekki hægt að hafa mismunandi verð á mismunandi landsvæðum,“ segir Breki í samtali við Fréttablaðið.
Hann segir að innleiðing reglugerðarinnar þýði að þá verði ekki aðeins borið saman verð í innlendum verslunum heldur verð um alla Evrópu. „Eins og er þá senda ekki ýmsar verslanir í Evrópu vörur til Íslands, eða neita að taka við greiðslum af íslenskum kortum. Sumar af þessum vörum eru seldar hér á landi á hærra verði, eftir að þetta þá geta Íslendingar keypt vörur á netinu á sama verði og gengur og gerist í Evrópu,“ segir Breki.
Netverslun aukist gífurlega
Á síðustu árum hefur verið gífurleg aukning í netverslun Íslendinga og þá sérstaklega kaup á vörum frá útlöndum í gegnum alþjóðlegar vefverslanir. Frá árinu 2013 til ársins 2017 sjöfölduðust sendingar til landsins frá útlöndum en árið 2017 keyptu Íslendingar vörur frá erlendum netverslunum fyrir 4,3 milljarða króna, samkvæmt tollskráningu frá Embætti tollstjóra og tollafgreiðslu Íslandspósts. Samanborið við kaup frá innlendum netverslunum fyrir 8,8 milljarða á sama tíma.
Í skýrslu Rannsóknarseturs verslunar um íslenska netverslun kemur fram að sá vöruflokkur sem Íslendingar keyptu mest af frá erlendum netverslunum 2017 voru föt og skór. Á milli ára jukust fatakaup frá erlendum fataverslunum um 31,4 prósent, ef bornir eru saman síðustu ársfjórðungar 2016 og 2017.
Enn fremur hefur innlend netverslun einnig verið að færast í aukana. Innlend netverslun í maí jókst um 48,6 prósent á milli ára og nam 3,6 prósent af innlendri kortaveltu verslunar í mánuðinum. Maímánuður 2019, var þannig veltuhæsti mánuður í innlendri netverslun og netsölu, frá því að Rannsóknarsetur verslunarinnar hóf að birta tölur með niðurbroti á netverslun.