Kókaín er unnið úr kókalaufum og er stærsta framleiðsluland heimsins Kólumbía. Samkvæmt umfjöllun The Economist hefur eftirspurn eftir kókaíni farið vaxandi og framleiðsla í landinu hefur aldrei veriði meiri en nú.
Ýmislegt hefur verið reynt til að hefta kókaínframleiðslu og reyna að fá bændur - sem hafa ræktað upp kókalauf og þannig unnið að framleiðslu kókaíns, oft í samvinnu við skipulögð glæpasamtök - til að sinna annarri í ræktun.
Þannig gripu stjórnvöld í Kólumbíu til þess ráðs, í samvinnu við stofnun Sameinuðu þjóðanna sem berst gegn fíkniefnum og skipulagðri glæpastarfsemi, UNODC, að borga bændum fyrir að hætta kókalaufsframleiðslu og snúa sér frekar að öðru. Þannig fengur þeir 312 Bandaríkjadali, jafnvirði rúmlega 42 þúsund króna, á mánuði fyrir að hefja ræktun á einhverju öðru, löglegu.
Þetta skilaði árangri í sumum tilvikum, en öðrum ekki. Svo virðist sem bændur sjái sér oftar hag í því að halda áfram kókalaufsframleiðslu - vegna hagnaðarvonarinnar - og yfirvöld hafa ekki heft hana að neinu marki, þrátt fyrir að vitað sé með töluvert mikilli nákvæmni, hvar hún á sér stað. Vonir standa þó til þess að til langs tíma þá muni bændur snúa sér meira að annarri ræktun.
Samkvæmt umfjöllun The Economist hefur eftirspurn eftir kókaíni í heiminum verið að aukast, að meðaltali. Í sumum löndum hefur hún aukist mikið.
Dauðsföllum vegna ofneyslu kókaíns hefur einnig farið fjölgandi, en erfiðlega hefur gengið að hefta útbreiðslu fíkniefnisins.
Sá markaður sem hefur verið að eflast einna mest er í Asíu, en samhliða miklum efnahagslegum uppgangi hefur eftirspurn eftir kókaíni aukist jafnt og þétt, og bæði dauðsföllum vegna ofneyslu og dómsmálum sem tengjast neyslu og dreifingu á kókaíni, hefur farið fjölgandi.