Alþingi samþykkti nýverið frumvarp þess efnis að heimilt verði að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði skattfrjálst inn á húsnæðislán til næstu tveggja ára. Úrræðinu átti að ljúka 30. júní 2019 en var framlengt til 30. júní 2021. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði. Vakin er athygli á því að úrræðið framlengist ekki sjálfkrafa hjá þeim sem nýta sér úrræðið.
Framlengt í annað skipti
Allt frá 1. júlí 2014 hefur landsmönnum staðið til boða að nota séreignasparnað sinn skattfrjálst til að borga niður húsnæðislán. Heimilt er að ráðstafa bæði eigin framlagi og framlagi launagreiðanda í séreignarlífeyrissjóð, til að greiða inn á höfuðstól veðlána sem tekin voru vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Umsækjandi þarf því að eiga íbúðarhúsnæði til eigin nota, skulda vegna öflunar á því og hafa gert samning við vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar og launagreiðanda um að greiða í séreignasjóð.
Með lögum nr. 111/2016 var úrræðið um ráðstöfun séreignarsparnaðar, sem renna átti út í lok júní 2017, framlengt um tvö ár eða til júníloka 2019. Nú hefur úrræðið aftur verið framlengt til ársins 2021.
Til að halda áfram að nota úrræðið þarf hins vegar að staðfesta það með því að skrá sig inn á www.leidretting.is og staðfesta að viðkomandi vilji halda áfram að nýta sér úrræðið. Lokadagur til staðfestingar er 30. september 2019 en ef ráðstöfunin er ekki framlengd þá fellur hún úr gildi frá og með 1. júlí 2019.
Færri nýtt sér úrræðið en lagt var upp með
Í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans í apríl í fyrra kom fram að 45 þúsund einstaklingar, ekki fjölskyldur, hafi ákveðið að ráðstafa séreignarsparnaði sínum inn á húsnæðislán með þessum hætti frá miðju ári 2014. Heildarumfang þeirrar upphæðar sem hópurinn hafi ráðstafað inn með þessum hætti væri 44 milljarðar króna. Jafnframt kom fram í svari ráðuneytisins að ljóst væri að „mun færri hafa kosið að nýta sér þennan möguleika“ en lagt var upp með.
Í skýrslu sérfræðingahóps um höfuðstólslækkun, sem skilaði af sér í nóvember 2013, kom fram að meðallaunatekjur fjölskyldna sem spöruðu í séreign og skulduðu í fasteign væri miklu hærri en meðallaunatekjur þeirra sem spara ekki. „Almennt eru tekjur þeirra sem spara í séreignalífeyrissparnaði mun hærri en hinna sem ekki gera það,“ segir orðrétt í skýrslunni. Og þar er bætt við að „tekjumismunur þeirra sem spara og gera það ekki er mikill á öllum aldri. Hér er alls staðar átt við fasteignaeigendur sem skulda eitthvað í fasteigninni.“
Því eru þeir sem eru lægri tekjur mun ólíklegri til að telja sig í stakk búna til að leggja fyrir séreignarsparnað, og þar af leiðandi fá þeir hvorki skattafsláttinn né viðbótarframlag atvinnurekenda sem nýtendum býðst.