Tveir fyrrum stjórnendur hjá WOW air ásamt hópi fjárfesta vinna að því að stofna nýtt íslenskt lággjaldaflugfélag á grunni WOW air. Avianta Capital, írskur fjárfestingarsjóður, hefur skuldbundið sig til að leggja nýstofnuðu félaginu, sem ber heitið WAB air, til 40 milljónir dala, jafnvirði rúmra fimm milljarða króna í nýtt hlutafé. Þetta kemur fram í minnisblaði sem Markaðurinn, fylgiriti Fréttablaðsins, hefur undir höndunum.
Gert ráð fyrir 500 starfsmönnum næstu 12 mánuði
Til stendur að WAB air hefji rekstur í haust og verði með sex vélar í rekstri fyrsta árið. Gert er ráð fyrir að flugfélagið muni fljúga til fjórtán áfangastaða í Evrópu og Bandaríkjunum og að ein milljón farþega ferðist með flugfélaginu. Þá er stefnt að því að fimm hundruð starfsmenn verði ráðnir til flugfélagsins næstu tólf mánuðum. Jafnframt er gert ráð fyrir að velta félagsins nemi tuttugu milljörðum króna á næsta ári.
Upplýst er um áform fjárfestahópsins í minnisblaði sem Markaðurinn hefur undir höndum. Samkvæmt því hefur hópurinn leitað til að minnsta kosti tveggja hérlendra banka, Arion banka og Landsbankans, og óskað eftir láni upp á 31 milljón evra, jafnvirði tæplega fjögurra milljarða króna, til eins árs fyrirgreiðslu. Til standi að nýta lánsféð sem eigið fé til þess að slá lán hjá ónefndum svissneskum banka.
Sveinn Ingi verður forstjóri WAB air ef allt gengur eftir
Avianta Capital sem er í eigu Aisilinn Whittley-Ryan, dóttur eins af stofnenda Ryan air, hefur skuldbundið sig til að tryggja félaginu 40 milljónir dala, eða um fimm milljarða króna, í nýtt hlutafé, samkvæmt minnisblaðinu. Sem endurgjald mun Avianta Capital eignast 75 prósenta hlut í félaginu.
Þá verður 25 prósent flugfélagsins í eigu félagsins Neo. Það félag er í eigu Arnars Más Magnússonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra flugrekstrarsviðs WOW, Sveins Inga Steinþórssonar, úr hagdeild WOW, sem sat í framkvæmdastjórn flugfélagsins, Boga Guðmundssonar, lögmanns hjá Atlantik Legal Services og stjórnarformanns BusTravel, og Þórodds Ara Þóroddssonar, ráðgjafa í flugvélaviðskiptum.
Gangi áformin um WAB air eftir verður Sveinn Ingi forstjóri flugfélagsins og Arnar Már mun gegna starfi aðstoðarforstjóra og framkvæmdastjóra flugrekstrar.