Á meðal nýmæla í nýjum umferðarlögum, sem samþykkt voru á Alþingi í júní síðastliðnum, er að nú eru prófanir á sjálfkeyrandi ökutækjum heimilaðar, bæði sjálfkeyrandi að fullu eða að hluta. Prófanirnar mega þó aðeins fara fram með leyfi Samgöngustofu en umferðarlögin taka gildi þann 1. janúar 2020.
Breytingar á leyfilegu vínandamagni
Ný umferðarlög voru samþykkt á Alþingi í júní síðastliðnum en í lögunum má finna veigamiklar breytingar á fyrri löggjöf. Í lögunum má finna breytingar um vínandamagn í blóði. Samkvæmt nýju lögunum telst ökumaður ekki getað stjórnað ökutæki ef vínandi mælis 0,2 prósent í blóði hans. Refsimörkin verða þó áfram miðuð við 0,5 prósent. Í frumvarpinu sem samgönguráðherra lagði fram miðuðu refsimörkin við 0,2 prósent en umhverfis- og samgöngunefnd gerði breytingu þar á.
Auk þess má finna ýmis ný ákvæði í nýju umferðarlögunum um hjólreiðar, þar á meðal er fellt brott almennt bann við því að reiða farþega á reiðhjóli en ráðherra mun hins vegar setja nánari reglur um flutning farþega á reiðhjólum. Auk þess er skylda barna til að nota hlífðarhjálm við hjólreiðar færð í lög og nær nú til barna yngri en 16 ára í stað barna yngri en 15 ára.
Sjálfkeyrandi að fullu eða hluta
Í lögunum má einnig finna nýmæli um sjálfkeyrandi ökutæki. Í lögunum kemur fram að prófanir á sjálfkeyrandi ökutækjum mega aðeins fara fram með leyfi Samgöngustofu. Henni er heimilt að veita leyfi fyrir prófun á ökutæki sem er sjálfkeyrandi að fullu eða að hluta.
Í lögunum kemur jafnframt fram að Samgöngustofu er heimilt að setja sérstök skilyrði fyrir veitingu leyfis í því skyni að tryggja öryggi, svo sem að prófun fari aðeins fram á lokuðum brautum og að ökumaður sé staddur í ökutæki við prófun gerist þess þörf að stjórna ökutæki handvirkt.