Meðalútgjöld á ferðamann vegna Íslandsferðar voru tæplega 209 þúsund í fyrra. Þar af voru stærstu útgjaldaliðirnir fyrirframgreidd pakkaferð, alþjóðlegt flug og gisting. Þá sögðust tæplega helmingur ferðamanna að verðlag sé á meðal þess sem helst megi bæta í íslenskri ferðaþjónustu. Þetta kemur fram niðurstöðum Ferðamálastofu um ferðahegðun og viðhorfa erlenda ferðamanna árið 2018. Yfir 27.000 ferðamenn tóku þátt í könnuninni.
Mest eytt í pakkaferðir og flug
Árið 2018 voru fyrirframgreiddar pakkaferðir 26 prósent af heildarútgjöldum þeirra ferðamanna sem komu til landsins. Þá var alþjóðlegt flug næst stærsti útgjaldaliður ferðamanna eða 19 prósent heildarútgjalda, gisting var 17 prósent, matsölustaðir og kaffihús 11 prósent og bílaleigumálar.
Meðalútgjöld voru tæplega 209 þúsund kórnur á ferðamann. Þá voru útgjöldin vegna Íslandsferðar hæst hjá Svisslendingum eða að meðaltali 324 þúsund krónur og næst hæst hjá Kínverjum eða að meðaltali 310 þúsund.
Gista að meðaltali sex nætur
Dvalarlengd ferðamanna var að jafnaði 6,3 nætur í fyrra. Þá gisti ríflega helmingur ferðamanna á bilinu fjórar til átta nætur, tæplega fimmtungur eina til þrjár nætur og ríflega fimmtungur níu nætur eða fleiri.
Meðaldvalarlengd var lengst hjá Mið-Evrópubúum eða 8,5 nætur og næstlengst hjá Suður-Evrópubúum eða 8,1 nótt. Ferðamenn frá Bretlandseyjum stöldruðu styst við eða 4,6 nætur.
Jafnframt kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar að tæplega helmingi gistinótta var eytt á hótelum, gistiheimilum og í hótelíbúðum, um fimmtungi í íbúðagistingu og einni af hverri tíu á opinberum tjaldsvæðum. Önnur tegund gistingar var nýtt í minna mæli.
60 prósent ferðuðust um á bílaleigubíl
Langflestir ferðamenn heimsóttu höfuðborgarsvæðið árið 2018 eða ríflega níu af hverjum tíu svarendum. Þrír fjórðu heimsóttu Suðurlandið og nærri þrír af hverjum fimm Reykjanesið. Þá heimsótti tæplega helmingur Vesturlandið, ríflega fjórðungur Norðurlandið, tæplega fjórðungur Austurlandið og einn af hverjum tíu Vestfirði.
Enn fremur kemur fram niðurstöðum könnunarinnar að svarendur frá Bretlandseyjum ferðuðust minnst utan höfuðborgarsvæðis í samanburði við önnur markaðssvæði. Suður- og Mið-Evrópubúar og Asíubúar ferðuðust hins vegar í langflestum tilfellum hlutfallslega meira til landshluta utan höfuðborgarsvæðisins en önnur markaðssvæði.
Um þrír af hverjum fimm svarendum sögðust hafa ferðast um á bílaleigubíl, tæplega þriðjungur í skipulagðri rútuferð og um 15 prósent í áætlunarbifreið. Þá voru bílaleigubílar voru notaðir í minna mæli af Norðurlandabúum og ferðamönnum frá Bretlandseyjum en þeim sem komu frá öðrum markaðssvæðum. Ferðamenn frá Bretlandseyjum nýttu hins vegar skipulagðar rútuferðir í mun meira mæli en önnur markaðssvæði.
Helmingur segir að bæta mætti verðlag
Tæplega helmingur svarenda nefndu verðlag þegar þeir voru beðnir um að nefna hvað mætti bæta í íslenskri ferðaþjónustu. Fimmtungur nefndi skipulag, tæplega fimmtungur vegi og sama hlutfall þjónustu. Aðrir þættir sem voru nefndir í nokkrum mæli voru í tengslum við upplýsingagjöf, afþreyingu og veitingahús, samgöngur og takmörkun á fjölda ferðamanna.
Þegar svarendur voru spurðir að því hvað þrennt þeim hefði þótt minnisstæðast við Íslandsferðina nefndu flestir náttúruna og landslagið eða þrír af hverjum fimm. Tveir af hverjum fimm nefndu afþreyingu, menningu eða viðburði. Fimmtungur nefndi fossa, Gullna hringinn og Bláa lónið.