Nýtt frammistöðumat Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sýnir að Ísland eigi eftir að innleiða 0,7 prósent EES-gerða á Íslandi. Það er jafnframt þriðja árið í röð sem innleiðingarhalli landsins er innan við eitt prósent, að því er kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
Liechtenstein stendur í 0,9 prósentum en Noregur í 0,4 prósentum. Innleiðingarhalli EFTA-ríkjanna innan EES var 0,7 prósent. Jafnframt náði innleiðingarhalli Íslands hámarki árið 2013 þegar hann nam 3,2 prósentum.
Hluti af stefnu stjórnvalda
Í frammistöðumatinu er tekinn saman árangur EFTA-ríkjanna þriggja innan evrópska efnahagssvæðisins (EES) við innleiðingu EES-gerða. Samhent átak innan stjórnsýslunnar við bætta framkvæmd EES-samningsins er ástæða þess viðsnúnings sem orðið hefur á innleiðingu EES-gerða á Íslandi, samkvæmt fréttatilkynningu Stjórnarráðsins. Unnið hefur verið að því að auka getu ráðuneyta til að vinna að innleiðingunni. Bætt frammistaða Íslands við framkvæmd samningsins er enn fremur hluti af stefnu stjórnvalda í EES-málum.
Þegar litið er til reglugerða töldust alls 38 reglugerðir óinnleiddar og versnaði frammistaðan lítillega frá síðasta mati þegar 35 reglugerðir höfðu ekki verið innleiddar.