Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir ummæli Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, um þingkonur Demókrataflokksins óboðleg og ummæli forsetans dæma sig sjálf, í samtali við fréttastofu RÚV. Katrín bætist þar með í hóp þjóðarleiðtoga sem gagnrýnt hafa framgöngu Trumps, þar á meðal Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, og Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti að fordæma ummælin
Í Twitter-færslu sagði Donald Trump að fjórar þingkonur Demókrataflokins ættu að fara aftur til „heimalanda“ sinna, sem hann sagði vera „algerlega niðurbrotna og glæpalagða staði.“ Ljóst þykir að hann hafi átt við þingkonurnar Alexandriu Ocasio-Cortez, Rashidu Tlaib, Ilhan Omar og Ayönnu Pressley. Þær eru allar fæddar í Bandaríkjunum fyrir utan Ihan Omar, sem fæddist í Sómalíu en flutti til Bandaríkjanna sem barn.
Ummælin hafa vakið hörð viðbrögð og fulltrúadeild Bandaríkjaþings fordæmdi færsluna í nótt. Þingsályktunin var samþykkt með 240 atkvæðum gegn 187 en í ályktuninni segir að ummælin séu rasísk og hafi réttlætt ótta og hatur gegn aðfluttum Bandaríkjamönnum og lituðu fólki.
Katrín Jakobsdóttir segir í samtali við fréttastofu RÚV í dag að hún taki undir álit fulltrúadeildarinnar. Hún segir jafnframt að ummæli forsetans séu óboðleg og dæmi sig sjálf.
Fleiri þjóðarleiðtogar hafa gagnrýnt ummælin en þar á meðal er Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, en hún sagði að ummæli Trumps væru „algerlega óásættanleg“. Þá hafa Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada og Nicola Sturgeon, oddviti skosku heimastjórnarinnar einnig fordæmt ummælin.