Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leggur til að fellt verði brott úr lögum þau skilyrði að framkvæmdastjórar og aðrir stjórnendur íslenskra fyrirtækja búi í aðildarríkjum EES-samningsins, aðildarríkjum EFTA eða í Færeyjum.
Ef frumvarp ráðuneytsins nær fram að ganga þýðir það að stjórnendur íslenskra fyrirtækja megi búa hvar sem er í heiminum, svo framarlega sem þeir eru ríkisborgarar í ofangreindum ríkjum. Tilefni lagasetningarinnar má rekja til athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA.
Þurfa ekki að lengur undanþágu til að sitja í stjórn íslenskra fyrirtækja
Í núgildandi lögum er gerð krafa um að framkvæmdastjórar og meirihluti stjórnarmanna í íslenskum atvinnufyrirtækjum skulu vera búsettir hér á landi, með þeirri undantekningu að það gildir ekki um ríkisborgara Færeyja, þeirra ríkja sem eiga aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða þeirra ríkja sem eru aðilar EFTA. Hins vegar gera lögin kröfu um að viðkomandi ríkisborgarar séu búsettir í fyrrnefndum ríkjum.
Tilefni frumvarpsins eru athugasemdir ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, við fyrrgreint búsetu skilyrði í íslenskum lögum en stofnunin vakti fyrst athugasemdir við skilyrðið í janúar 2014. Samkvæmt EES-samningum er ekki hægt að setja höft á rétt ríkisborgara á EES-svæðinu til að öðlast staðfestu á yfirráðasvæði einhvers annars ríkis á svæðinu. Staðfesturétturinn felur meðal annars í sér rétt til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og til að stofna og reka fyrirtæki.
Í áformum um lagafrumvarpið sem birt hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda, segir að ESA hafi gert athugasemdir við fimm lagabálka en þrír þeirra hafi nú þegar verið breytt í samræmi við athugasemdir ESA. Jafnframt segir í drögunum að ríkisstjórnin telji það vera eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands að sinna framkvæmd EES-samningsins vel og þetta sé frumvarp liður í því.
Með frumvarpinu verður lagt til fellt verði út búsetuskilyrði laganna, það er að segja að ríkisborgarar EES-ríkja, EFTA ríkja og Færeyja sem búsettir eru utan þessara ríkja, og ríkisborgarar þriðju ríkja sem búsettir eru á Evrópska efnahagssvæðinu, þurfi ekki lengur undanþágu ráðherra til að vera í stjórn eða vera framkvæmdastjórar fyrirtækja í atvinnurekstri hér á landi.