Siðanefnd Alþingis hefur klárað álit sitt um Klausturmálið svokallaða og sent til forsætisnefndar. Þeir sex þingmenn sem náðust á upptöku hafa fengið álitið til umfjöllunar og hafa frest fram í lok þessarar viku til að skila andsvörum. Forsætisnefnd klárar síðan líklega málið í næstu viku og verður álitið þá gert opinbert. Frá þessu er greint í frétt RÚV í dag.
Klausturmálið fór til siðanefndar Alþingis frá forsætisnefnd í lok maí síðastliðins. Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, og og Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, voru kjörin varaforsetar forsætisnefndar Alþingis í janúar síðastliðnum til þess að fjalla um Klausturmálið eftir að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og allir varaforsetar úr hópi þingmanna, sögðu sig frá umfjöllun um Klausturmálið, vegna vanhæfis þann 17. desember 2019.
Siðanefnd hefur þegar skilað forsætisnefnd öðru áliti vegna Klausturmálsins, en það var birt í lok mars síðastliðins. Steinunn Þóra og Haraldur höfðu óskað eftir álitinu. Í því sagði meðal annars: „Alþingismenn eru opinberar persónur, sú háttsemi sem um ræðir átti sér stað á opinberum vettvangi og tengist málum sem hafa verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni. Þar sem hátternið varðar almenning verður ekki litið á þau atvik sem hér um ræðir sem einkasamtal.“
Var það mat meirihluta nefndarinnar að samræðurnar sem fóru fram á barnum Klaustri á milli sex þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins, á þeim tíma sem samræðurnar áttu sér stað, falli undir gildissvið siðareglna þingsins.
Sex þingmenn á bar
Þriðjudaginn 20. nóvember fóru sex þingmenn – fjórir úr Miðflokki og tveir úr Flokki fólksins – á Klaustur bar, í námunda við Alþingishúsið. Þar settust þeir niður, drukku áfengi og töluðu með niðrandi og meiðandi hætti um samstarfsfólk sitt í stjórnmálum.
Þeir stærðu sig einnig að pólitískum hrossakaupum með sendiherrastöður, þingmenn Miðflokksins reyndu að telja þingmenn Flokks fólksins um að ganga til liðs við sig auk þess sem niðurlægjandi orð eru látin falla um Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi varaþingmann og þekktan baráttumann fyrir auknum réttindum fatlaðra sem glímir við sjaldgæfan beinsjúkdóm, og þekktan samkynhneigðan tónlistarmann.
Það sem þingmennirnir sex, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður hans, Anna Kolbrún Árnadóttir, ritari flokksins, Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, og Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson úr Flokki fólksins, vissu ekki var að í nálægð við þá sat einstaklingur sem upphaflega kallaði sig bara „Marvin“. Sá tók upp það sem fram fór og sendi á valda fjölmiðla.
Upptökurnar voru síðar birtar í fjölmiðlum og „Marvin“ steig síðar fram sem Bára Halldórsdóttir.
Karl Gauta Hjaltasyni og Ólafi Ísleifssyni var vísað úr Flokki fólksins í kjölfarið og gengu til liðs við Miðflokkinn.