Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar hefur verið falið að vinna aðgerðaáætlun við grunn- og leikskóla á höfuðborgarsvæðinu á svokölluðum gráum dögum. Aðgerðaáætlunin kemur í kjölfar tillögu frá forsvarsmönnum Bíllausa dagsins en samtökin benda á að börn séu hluti af þeim hópi sem sé hvað viðkvæmastur fyrir áhrifum svifryks á heilsuna og því sé brýnt að vernda þau. Lagt er til að skilgreint verði 400 til 500 metra þynningarsvæði í kringum leikskóla þar sem vélknúin ökutæki eru ekki leyfð á ákveðnum tímum.
Hleypa börnum ekki út á gráum dögum
Samþykkt var á fundi borgarráðs í síðustu viku að fela umhverfis- og skipulagssviði að vinna að aðgerðaáætlun í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar um aukin loftgæði í kringum leik- og grunnskóla í borginni.
Ákvörðunin byggir á tillögu frá fjórum samtökum sem standa að Bíllausa deginum; Samtök um bíllausan lífsstíl, Hjólafærni á Íslandi, Ungum umhverfissinnum og Grænni byggð. Tillagan snýst um að gerð viðbragðsáætlana hjá sveitarfélögum sem gilda á innan svæðis í kringum leikskóla þegar búist er við að styrkur svifryks fari yfir heilsuverndarmörk eða svokallaður „grár dagur“.
Í tillögu samtakanna segir að börn séu hluti af þeim hópi sem sé hvað viðkvæmastur fyrir áhrifum svifryks á heilsuna og því brýnt að veita þeim hóp vernd. Samtökin segja að þegar gráir dagar eru þá hleypi leikskólakennarar börnum ekki út í frímínútur og sé fólk hvatt til þess að skilja bílinn eftir heima. Samtökin leggja hins vegar til að með viðbragðsáætlun sé hægt að snúa þessu við og skilgreina 400 til 500 metra þynningarsvæði kringum leikskóla þar sem vélknúin ökutæki eru ekki leyfð í ákveðinn tíma.
Vilja prófa áætlunina í september
Samgönguvika Evrópu er í lok september og vilja samtökin nota vikuna til þess að prófa viðbragðsáætlun fyrir gráa daga. Samtökin leita því til sveitarfélaganna en samtökin vilja vinna með leik- og grunnskólastjórum við að setja saman vikuna.
Samtökin bjóðast meðal annars til þess að setja saman gátlista yfir það sem þarf að gera þegar grár dagur er í vændum og vera til ráðgjafar fyrir framkvæmd gátlistans. Einnig segja samtökin að það þurfi að skilgreina nákvæmlega þynningarsvæðið hjá sérhverjum skóla, skilgreina hvar lokanir á götum þurfa að vera, hver skuli loka þeim og á hvaða tíma dags. Þá segir í tillögunni að Bíllausi dagurinn muni einnig skipuleggja fræðslu í kringum lokanirnar svo foreldrar og starfsfólk sé vel upplýst um sitt hlutverk og verkefnið sjálf.
Mikil öryggisaukning fylgir
Í tillögunni segir að tímabundnar lokanir fyrir bílaumferð í kringum leikskóla hafi gefist vel í mörgum breskum borgum og hverfum. Þá séu helstu aðliggjandi götum lokað í kringum skólana á hverjum morgni og síðdegis.
„Um er að ræða talsvert einfalda aðgerð þar sem skiltum er komið fyrir í kringum aðliggjandi götur og þeim lokað fyrir umferð bíla. Niðurstöður sýna ekki einungis stórbætt loftgæði heldur einnig mikla öryggisaukningu og jafnvel bættan námsárangur í einhverjum tilvikum. Heilt yfir virðist skutl foreldra dragast saman um að minnsta kosti 20 prósent,“ segir í tillögunni.