Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, hefur verið skipaður seðlabankastjóri af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þetta kemur fram í frétt forsætisráðuneytisins í dag.
Í henni segir jafnframt að Ásgeir hafi lokið doktorsprófi í hagfræði frá Indiana University í Bandaríkjunum árið 2001 með alþjóðafjármál, peningamálahagfræði og hagsögu sem aðalsvið. Doktorsritgerð Ásgeirs fjallaði um sveiflujöfnun yfir skamman tíma í litlu, opnu hagkerfi. Þá kemur fram hjá ráðuneytinu að Ásgeir hafi starfað við hagfræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2004, fyrst sem lektor og síðan dósent. Hann hafi verið deildarforseti við hagfræðideild frá árinu 2015.
„Samhliða störfum sínum við Háskóla Íslands hefur Ásgeir meðal annars verið efnahagsráðgjafi Virðingar og Gamma. Hann hefur gegnt öðrum ábyrgðarstörfum, meðal annars sem formaður starfshóps um endurskoðun peningastefnu og verið forstöðumaður í greiningardeild og aðalhagfræðingur Kaupþings og síðar Arion banka á árunum 2004 til 2011. Á árunum 2000 til 2004 var Ásgeir sérfræðingur hjá Hagfræðistofnun og samhliða því stundakennari við Háskóla Íslands,“ segir í frétt ráðuneytisins.
Fjórir umsækjendur taldir mjög vel hæfir
Hæfnisnefnd, skipuð af forsætisráðherra, mat umsækjendur um starf seðlabankastjóra, og voru fjórir umsækjenda taldir mjög vel hæfir. Það voru þeir Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands, Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, Jón Daníelsson, prófessor við LSE í London, og Arnór Sighvatsson, ráðgjafi seðlabankastjóra og fyrrverandi aðalhagfræðingur og aðstoðarseðlabankastjóri. Allir hafa þeir doktorspróf í hagfræði.
Umsækjendur höfðu frest til þess að gera athugasemdir við hæfismat nefndarinnar sem hún tók síðan tillit til.
Kjarninn greindi frá því fyrr í sumar að tólf umsækjendum hefði verið skipt niður í hæfisflokka; hæfa, vel hæfa, og mjög vel hæfa. Umsækjendur voru upphaflega 16, en eins og fram hefur komið þá dró Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi ráðherra og formaður Viðreisnar, umsókn sína til baka, en tveir aðrir umsækjendur, gerðu það líka.
Einn umsækjenda, sem var nemi, uppfyllti ekki skilyrði til að vera hæfur í starfið og var því ekki í flokkun eftir hæfi hjá nefndinni.
Formaður nefndarinnar var Sigríður Benediktsdóttir, en með henni í nefndinni voru Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, og Þórunn Guðmundsdóttir, hæstaréttarlögmaður og varaformaður bankaráðs, tilnefnd af bankaráði Seðlabanka Íslands.