Mynd: Bára Huld Beck Már Guðmundsson
Mynd: Bára Huld Beck

Þegar Már Guðmundsson var endurskipaður seðlabankastjóri

Ritstjóri Morgunblaðsins hefur opinberað að fjármála- og efnahagsráðherra hafi bæði gefið það til kynna og sagt ýmsum frá því að hann ætlaði sér ekki að endurskipa Má Guðmundsson sem seðlabankastjóra árið 2014. Þegar hann hafi gert það hafi ráðherrann greint ritstjóranum frá því að skipunin stæði í hæsta lagi til eins árs. Mikil ólga var í Seðlabankanum á þessum tíma vegna meintrar aðfarar að sjálfstæði hans.

Í febr­úar 2014 var mikil ólga á meðal starfs­manna Seðla­banka Íslands vegna ann­ars vegar mik­illar gagn­rýni ráða­manna og full­trúa þeirra á störf bank­ans í tengslum við skulda­leið­rétt­ing­una. Sú gagn­rýni var harð­ast sett fram af Sig­mundi Davíð Gunn­laugs­syni, þá for­sæt­is­ráð­herra og for­manni Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Þann 19. febr­úar 2014 til­kynnti Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, Má Guð­munds­syni seðla­banka­stjóra að staða hans yrði aug­lýst til umsókn­ar, en fimm ára skip­un­ar­tími Más átti að renna út í júlí sama ár. Heim­ild var fyrir því að láta skipun Más end­ur­nýj­ast sjálf­krafa um önnur fimm ár þar sem seðla­banka­stjórar mega sitja tvö fimm ára tíma­bil. Þessi dagur í febr­úar var síð­asti dag­ur­inn sem Bjarni gat ákveðið að aug­lýsa stöð­una. Dag­inn eftir hefði ráðn­ing Más end­ur­nýj­ast sjálf­krafa sam­kvæmt lög­um.

Í frétta­skýr­ingu Kjarn­ans kom fram að margir við­mæl­enda hans innan Seðla­banka Íslands ótt­uð­ust að ákvörð­unin um að aug­lýsa stöðu seðla­banka­stjóra lausa til umsóknar væri til­raun til að ganga gegn sjálf­stæði bank­ans og fag­legri yfir­stjórn hans vegna grein­ingar hans á áhrifum skulda­leið­rétt­ing­ar­inn­ar, stærsta ein­staka kosn­inga­máli Sig­mundar Dav­íðs og Fram­sókn­ar­flokks­ins á þessum tíma. Sumir lyk­il­manna voru sann­færðir að um hefnd­ar­að­gerð væri að ræða. Auk þess stæði til að færa fyr­ir­komu­lag yfir­stjórnar bank­ans til þess horfs sem var fyrir hrun, þegar banka­stjór­arnir voru þrír og hefð hafði skap­ast fyrir því að stjórn­mála­menn væru á meðal þeirra. Skýr­ustu dæmin um það voru Finnur Ing­ólfs­son, fyrr­ver­andi vara­for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins, og Davíð Odds­son, fyrr­ver­andi for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins og for­sæt­is­ráð­herra, sem gegndi stöðu for­manns banka­stjórnar fram á árið 2009.

Opin­bera skýr­ingin sem gefin var á því að staðan yrði aug­lýst var þó önn­ur. Stjórn­völd höfðu boðað end­ur­skoðun á lögum um Seðla­banka Íslands, og sér­stak­lega á fyr­ir­komu­lagi yfir­stjórnar hans, og ætl­uðu að skipa starfs­hóp til að leggja mat á æski­legar breyt­ing­ar. Æski­legt þætti að þau hefðu meira svig­rúm en þau töldu að væri til staðar ef Már yrði skip­aður í fimm ár til við­bót­ar.

Í sér­stakri umræðu sem fór fram á Alþingi vegna þessa þriðju­dag­inn 25. febr­úar 2014 kom þó fram í máli Bjarna að ólík­legt væri að frum­varp um breyt­ingar á lögum um Seðla­bank­ann myndi verða lagt fram þá um vor­ið. Vand­séð var því að aug­lýs­ing á stöðu hans hefði skapað það svig­rúm sem vísað var í sem ástæðu fyrir aug­lýs­ingu á starfi hans.

Það áttu síðan eftir að líða rúm fimm ár þangað til að lög um breyt­ingar á Seðla­banka Íslands voru á end­anum sam­þykkt. Það gerð­ist í lið­inni viku þegar slík lög, sem fela í sér sam­ein­ingu hans við Fjár­mála­eft­ir­litið og fjölgun í yfir­stjórn bank­ans. Sam­kvæmt lög­unum verður einn aðalseðla­banka­stjóri en þrír vara­seðla­banka­stjór­ar. Einn mun leiða mál­efni er varða pen­inga­­stefnu, einn leiða mál­efni er varða fjár­­­mála­­stöð­ug­­leika og einn leiða mál­efni er varða fjár­­­mála­eft­ir­lit. Vara­­seðla­­banka­­stjórar fjár­­­mála­­stöð­ug­­leika og fjár­­­mála­eft­ir­lits verða skip­aðir eftir til­­­nefn­ingu fjár­­­mála- og efna­hags­ráð­herra. Seðla­banka­stjór­inn og vara­seðla­banka­stjór­inn sem fer með pen­inga­stefn­una verða skip­aðir af for­sæt­is­ráð­herra.

Vör­uðu við afleið­ingum

Már, og aðrir lyk­il­menn innan Seðla­banka Íslands, komu fyrir efna­hags- og við­skipta­nefnd Alþingis í nóv­em­ber 2013 og sögðu þar að láns­hæf­is­ein­kunn rík­is­sjóðs yrði mögu­lega lækkuð niður í rusl­flokk ef sjálf­stæði bank­ans yrði haft að engu og hann skikk­aður til að fjár­magna skulda­leið­rétt­inga­hug­myndir rík­is­stjórn­ar­inn­ar, eins og þá hafði verið viðr­að, en fram­kvæmdin var þá ófjár­mögn­uð. Á end­anum var fjár­magnið í hana, alls 72,2 millj­arðar króna, tekið úr rík­is­sjóði.

Sig­mundur Dav­íð, þáver­andi for­sæt­is­ráð­herra, brást mjög hart við þessum yfir­lýs­ingum Seðla­bank­ans og sagði í sjón­varps­við­tali 18. nóv­em­ber sama át að bank­inn væri að stunda póli­tík frekar en að sinna lög­bundnum verk­efnum sín­um. Það ætti ekki við um alla sem þar ynnu en nokkrir starfs­menn væru í stöðugri póli­tík. Á Við­skipta­þingi, sem fór fram 12. febr­úar 2014, flutti Sig­mundur Davíð svo þrumu­ræðu, en sama dag hafði komið fram grein­ing pen­inga­stefnu­nefndar Seðla­banka ÍSlands á mögu­legum áhrifum skulda­leið­rétt­ing­ar­innar á efna­hags­horf­ur. Þar voru áhrifin metin meiri en ráða­menn höfðu sagt þegar þeir kynntu „Leið­rétt­ing­una“ í nóv­em­ber árið áður. Í ræðu sinni furð­aði Sig­mundur Davíð sig á for­gangs­röðun Seðla­bank­ans og að hann skyldi leggja í mikla vinnu við slíka grein­ingu „óum­beð­inn“. Í frægu sjón­varps­við­tali við Gísla Mart­ein Bald­urs­son, sem fram fór 16. febr­úar 2014, sagði Sig­mundur Davíð að hann hefði um nokk­urt skeið verið ósam­mála mörgu í stefnu Seðla­bank­ans og að það væri mik­il­væg­ara að standa vörð um sjálf­stæði hans ef önnur rík­is­stjórn en sú sem hann leiddi væri við stjórn­völ­inn.

Ummæli for­sæt­is­ráð­herr­ans ollu mik­illi reiði á meðal starfs­manna Seðla­bank­ans. Við­mæl­endur Kjarn­ans á þeim tíma sögðu að ekki væri hægt að túlka þau öðru­vísi en sem alvar­lega aðför að sjálf­stæði bank­ans. Auk þess hefðu ummælin vegið að trú­verð­ug­leika Seðla­banka Íslands. Þegar við bætt­ist, þremur dögum eftir við­talið, að Má Guð­munds­syni var greint frá því að aug­lýsa ætti stöðu hans lausa til umsókn­ar, jókst reiði hluta lyk­il­starfs­manna til muna. Í sam­tölum sem blaða­menn Kjarn­ans áttu við slíka á þessum tíma kom fram að margir þeirra væru að íhuga að segja starfi sínu lausu vegna vær­ing­anna.

Líkti brott­hvarfi sínu við kross­fest­ingu

Skipan Más Guð­munds­sonar í stöðu seðla­banka­stjóra, sem gerð var í tíð rík­is­stjórnar Jóhönnu Sig­urð­ar­dótt­ur, var ætið þyrnir í síðu margra á hægri væng stjórn­mál­anna. Már hefur aldrei notið sér­stakra vin­sælda þar og hefur oft verið skot­spónn nafn­lausra níð­vett­vanga þess hólfs stjórn­mál­anna, bæði á vef og í þeim prent­miðlum sem ganga í takt við þau stjórn­mál, sér­stak­lega með vísun í það að hann hefði aðhyllst marx­isma á yngri árum og ætti sér sögu í Alþýðu­banda­lag­inu.

Þá hefur sú ákvörðun vinstri­st­jórn­ar­innar að breyta lögum um Seðla­banka Íslands, sem fól meðal ann­ars í sér að seðla­banka­stjórum var fækkað úr þremur í einn, ætið verið séð sem bein aðför að Davíð Odds­syni í kreðsum hans. Eina ástæða laga­breyt­ing­anna hafi verið að losna við hann úr bank­an­um, sem gerð­ist í tíð minni­hluta­stjórnar Vinstri grænna og Sam­fylk­ing­ar, sem sat með lið­sinni Fram­sókn­ar­flokks Sig­mundar Dav­íðs, snemma árs 2009 og áður en fyrstu þing­kosn­ingar eft­ir­hrunsár­anna fóru fram.

Davíð tjáði sig um þessi mála­lok í frægri ræðu sem hann hélt á lands­fundi Sjálf­stæð­is­flokks­ins í lok mars 2009. Þar sagði hann meðal ann­ars Jóhönnu Sig­urð­ar­dóttur vera dálítið eins og álfur út úr hól, að Björg­vin G. Sig­urðs­son, fyrr­ver­andi við­skipta­ráð­herra, ætti drengja­met í að leka upp­lýs­ingum í fjöl­miðla og líkti starfs­lokum sínum í Seðla­bank­anum við kross­fest­ingu Krists. „Þeir þrjótar sem kross­festu Krist létu tvo óbóta­menn sitt­hvoru megin við hann á kross­in­um. En þegar verk­lausa minni­hluta­stjórnin hengdi þrjót­inn Dav­íð, voru það tveir strang­heið­ar­legir og vand­aðir heið­urs­menn, sem fengu grátt að gjalda mann­inum til sam­læt­is[...]Sú lág­kúru­lega aðgerð sem var gerð til þess að hið póli­tíska endaræði yrði ekki eins áber­andi er til vitnis um hversu lýð­ræð­is­þroski þessa fólks er lít­ill[...]Út­rás­ar­vík­ing­arnir sem settu Ísland á hlið­ina áttu eina sam­eig­in­lega ósk og hún var að koma Davíð Odds­syni úr Seðla­bank­an­um. Þessa ósk flýtti vinstri stjórnin sér í að upp­fylla, vænt­an­lega í þakk­læt­is­skyni við vík­ing­ana fyrir vel unnin störf í þjóð­ar­þágu."

Davíð segir Bjarna hafa hringt

Már Guð­munds­son var á end­anum end­ur­skip­aður í stól seðla­banka­stjóri í ágúst 2014 og boð­aðar breyt­ingar á yfir­stjórn Seðla­bank­ans gengu ekki í gegn. Það vakti þó athygli að þegar Már var end­ur­skip­aður þá gaf hann út yfir­lýs­ingu sem birt var á vef bank­ans.

Í henni sagði að í skip­un­ar­bréfi sínu hefði fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra vakið athygli á því að vinna við heild­ar­end­ur­skoðun laga um Seðla­bank­ann væri haf­in. Má væri það ljóst að þær breyt­ingar gæti haft í för með sér að end­ur­ráðið yrði í yfir­stjórn bank­ans. „Ég tel í þessu sam­bandi rétt að upp­lýsa að ég hef í nokkur ár haft hug á að skoða mögu­leik­ann á að hverfa á ný til starfa erlendis áður en ald­urs­mörk hamla um of. Ég taldi ekki heppi­legt að gera það nú í ljósi ástands­ins og verk­efna­stöð­unnar í Seðla­bank­anum auk fjöl­skyldu­að­stæðna. Þetta mun breyt­ast á næstu miss­er­um. Það er því óvíst að ég myndi sækj­ast eftir end­ur­ráðn­ingu komi til slíks ferlis vegna breyt­inga á lögum um Seðla­banka Íslands á næstu miss­er­um.“

Um síð­ustu helgi, tæpum fimm árum eftir að Már var end­ur­ráð­in, á meðan að frum­vörp um breyt­ingar á Seðla­banka Íslands voru enn ósam­þykkt á Alþingi og degi áður en Kjarn­inn greindi fyrstur miðla frá því hvaða fjórir umsækj­endur hafi verið metn­ist hæf­astir í kapp­hlaup­inu um að verða eft­ir­maður Más, birt­ist Reykja­vík­ur­bréf í Morg­un­blað­inu skrifað af Davíð Odds­syni. Þar greindi hann frá því að Bjarni Bene­dikts­son hefði „bæði gefið til kynna og sagt ýmsum frá að hann ætl­­aði sér ekki að end­ur­skipa Má Guð­­munds­­son þegar að því kom árið 2014. Þegar að þessu dró var ráð­herr­ann staddur fyrir norð­an, senn­i­­lega á Siglu­­firði, og hringdi í menn og upp­­lýsti þá, og þar á meðal rit­­stjóra Morg­un­­blaðs­ins, að vegna óvænts flækju­­stigs sem upp hefði komið (sem ekki verður farið út í hér) hefði hann ekki náð að gera breyt­ing­­arnar sem hann hefði marg­­boð­að. Hann myndi því skipa Má og skip­un­­ar­bréfið gæfi til kynna að það yrði til fimm ára. Hins vegar væri sam­eig­in­­legur skiln­ingur á því að skip­unin stæði í hæsta lagi til eins árs.

Ekki voru end­i­­lega allir mjög trú­aðir á þennan mála­til­­bún­­að. En sam­­kvæmt minnis­p­unkt­unum sagði ráð­herr­ann efn­is­­lega á þessa leið: Þessu mega menn treysta og Már gerir sér grein fyrir þessu og mun birta yfir­­lýs­ingu sem í raun stað­­festir það sem ég er að segja.“

Sú yfir­lýs­ing var rakin hér að ofan.

Tók fimm ár að end­ur­skoða lögin

Már hætti þó ekki áður en skip­un­ar­tími hans leið. Þegar hann lætur af störfum í ágúst næst­kom­andi verða tíu ár liðin frá því að hann tók við stöð­unni. Ýmis­legt spil­aði inn í þá nið­ur­stöðu. Í fyrsta lagi gegndi Seðla­bank­inn mjög mik­il­vægu hlut­verki í sam­komu­lagi sem gert var við kröfu­hafa föllnu bank­anna árið 2015 og það var póli­tískt mat að rétt væri að Már myndi ljúka þeirri vinnu sem leiddi svo til þess að fjár­magns­höft voru rýmkuð.

Í öðru lagi fóru íslensk stjórn­mál á hlið­ina í apr­íl­byrjun 2016 þegar Panama­skjölin voru opin­beruð, Sig­mundur Davíð sagði af sér sem for­sæt­is­ráð­herra og nýjar kosn­ingar voru boð­aðar um haust­ið. Illa gekk að mynda rík­is­stjórn eftir þær kosn­ingar og þegar hún varð loks að veru­leika í jan­úar 2017 var búið að færa mál­efni Seðla­banka Íslands frá fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­inu yfir til for­sæt­is­ráðu­neyt­is­ins þar sem Bjarni Bene­dikts­son kom sér fyr­ir. Rík­is­stjórn hans sat þó ein­ungis í átta mán­uði.

Sú næsta, undir for­sæti Katrínar Jak­obs­dótt­ur, tók við völdum í lok nóv­em­ber 2017. Í stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­unum var tek­ist á um hvar mál­efni Seðla­banka Íslands ættu að vera. Bjarni vildi fá þau aftur yfir í fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytið en Katrín vildi halda þeim í for­sæt­is­ráðu­neyt­inu. Á end­anum hafði hún betur en þegar frum­varp um breyt­ingar á Seðla­banka Íslands kom loks­ins fram í mars 2019 fólst í því að skipum nýrrar yfir­stjórnar yrði skipt á milli for­sæt­is­ráð­herra og fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra.

Katrín Jakobsdóttir mun skipa næsta seðlabankastjóra.
Mynd: Bára Huld Beck

Þegar frum­varpið varð loks að lög­um, skömmu eftir mið­nætti 20. júní síð­ast­lið­inn, var ljóst að það tæki því ekki að Már Guð­munds­son myndi hætta áður en að skip­un­ar­tími hans liði undir lok, enda innan við tveir mán­uðir eftir af hon­um.

Efað­ist um raun­veru­legt fram­boð af kandidötum

Í við­tali við sjón­varps­þátt­inn 21 á Hring­braut í mars 2018 sagði Már að hann hafi ætlað sér að losa fjár­magns­höftin áður en hann hætti. Eftir stæði „smá aflandskrón­ustabbi“ sem tæki lung­ann af árinu 2019 að klára.

Þar sagði Már einnig að honum hlakk­aði mjög til að hætta og að fólk geti ekki lengur setið lengi í stóli seðla­banka­stjóra. „Mitt mat er það að í gamla daga var hægt að vera 30 ár í starfi sem þessu. En það er ekki hægt leng­­ur. Það er tími fyrir allt.“

Már sagði enn fremur að þótt nægt fram­­boð væri af fólki sem taldi sig geta orðið næsti seðla­­banka­­stjóri þá væri ekki víst að raun­veru­­legt fram­­boð af kandídötum í starfið væri mik­ið.

Alls sóttu 16 manns um stöðu seðla­banka­stjóra þegar hún var aug­lýst. Kjarn­inn greindi frá því fyrstur miðla 16. júní síð­ast­lið­inn að fjórir umsækj­endur hefðu verið metnir mjög vel hæfir af hæf­is­nefnd. Því stendur valið á næsta seðla­banka­stjóra á milli þeirra nema eitt­hvað breyt­ist vegna athuga­semda ann­arra umsækj­enda við hæf­is­mat ­nefnd­ar­inn­ar.

Þeir fjórir sem metnir voru mjög vel hæfir eru Gylfi Magn­ús­­son, dós­ent við Háskóla Íslands, Ásgeir Jóns­­son, for­­set­i hag­fræði­deild­ar­ Há­skóla Íslands, Jón Dan­í­els­­son, pró­­fessor við L­SE í London, og Arnór Sig­hvats­­son, ráð­gjafi seðla­­banka­­stjóra og fyrr­ver­andi aðal­­hag­fræð­ingur og aðstoð­­ar­­seðla­­banka­­stjóri. Allir hafa þeir dokt­or­s­­próf í hag­fræði.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar