Rannveig Sigurðardóttir, núverandi aðstoðarseðlabankastjóri, og Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, munu taka við stöðum nýrra varaseðlabankastjóra um áramótin. Staða hins þriðja verður auglýst. Frá þessu er greint á RÚV í kvöld.
Ný lög um Seðlabanka Íslands taka gildi um næstu áramót og fylgja í kjölfarið ýmsar breytingar. Ein sú stærsta er að auk seðlabankastjóra verða þrír varaseðlabankastjórar skipaðir og völdum stjórnar bankans þannig dreift.
Fram kom í fréttum í dag að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefði skipað Ásgeir Jónsson, forseta hagfræðideildar Háskóla Íslands, sem seðlabankastjóra en Már Guðmundsson hættir í sumar eftir 10 ár í starfi.
Embætti aðstoðarseðlabankastjóra verður lagt niður við fyrrnefndar breytingar á lögum en Rannveig Sigurðardóttir, sem gegnt hefur því embætti síðan í fyrra, tekur þá við stöðu varaseðlabankastjóra sem leiðir peningastefnu.
Á sama tíma sameinast Fjármálaeftirlitið Seðlabankanum og verður því hagað þannig að Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, tekur þá við stöðu varaseðlabankastjóra sem leiðir málefni fjármálaeftirlits. Staða þess sem leiðir fjármálastöðugleika verður auglýst, samkvæmt RÚV.