Á sama tíma og millilandaflug hefur vaxið mikið hérlendis hefur orðið talsverður samdráttur í innanlandsflugi. Tvö flugfélög stunduðu áætlunarflug innanlands árið 2018 en samkvæmt drögum að nýrri flugstefnu stjórnvalda hefur rekstur þeirra verið þungur. Á síðustu tíu árum hefur farþegum í innanlandsflugi fækkað um fimmtung og tekjur flugfélaganna tveggja ekki staðið undir kostnaði.
Afkoma í innanlandsflugi ekki verið ásættanleg
Í nýjum drögum að grænbók um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi hér á landi, sem starfshópur samgöngu- og sveitastjórnarráðherra vann, kemur fram að mikil þróun hafi orðið í flugreksrti hér á landi á undanförnum áratugum og að umfang greinarinnar hafi aukist verulega, einkum á síðustu tíu árum.
Flugferðum til og frá landinu hefur fjölgað og mun fleiri flugfélög fljúga til landsins en áður. Árið 2008 flugu færri en fimm félög allt árið til Íslands en tíu árum seinna flugu hingað til lands 31 félag, þar af voru 11 erlend félög sem flugu allt eða nær allt árið.
Á meðan millilandaflug hefur aukist verulega hér á landi hefur rekstur flugfélaga sem fljúga innanlands verið erfiður og fjöldi farþega dregist saman. Í flugstefnunni segir að afkoma í innanlandsflugi hafi ekki verið ásættanleg hjá þeim tveimur félögum sem hafa sinnt þessari þjónustu á síðastliðnum árum. Fargjöldin og þar með tekjurnar hafi ekki staðið undir kostnaði og félögin því verið rekin með tapi.
Á vormánuðum 2019 lýstu stjórnendur Icelandair því yfir að rekstur Air Iceland Connect væri mjög erfiður og skoða þyrfti allar leiðir til að bæta hann. Önnur flugfélög í innanlandsflugrekstri hafa einnig átt í erfiðleikum og í stefnunni segir að ljóst sé að rekstrarumhverfi þeirra er erfitt.
Farþegum fækkað um 20 prósent
Eftir mikinn samdrátt í ferðaþegafjölda frá árinu 2008 fór farþegum í innanlandsflugi aftur að fjölga árið 2014 og á þremur árum fjölgaði farþegum um 14,5 prósent. Má það að einhverju leyti rekja til fjölgun erlendra ferðmanna hér á landi en talið er að þeir séu um 20 prósent af farþegafjöldanum í innanlandsflugum. Hins vegar segir í stefnunni að þeir ferðamenn sem fari sparlega með fé séu ólíklegir til að nýta sér innanlandsflugið en sá hópur hefur einkennt þá aukningu sem hefur verið í fjölda ferðmanna hér á landi á síðastliðnum árum. Á síðasta ári fækkaði farþegum í innanlandsflugi aftur og segir í flugstefnunni að útlit sé fyrir að í ár verði aftur fækkun milli ára.
Í stefnunni segir að sveiflur í farþegafjölda í innanlandsflugi megi rekja til nokkurra þátta. Álög á innanlandsflug hafi aukist á síðustu árum en á tímabilinu 2009 til 2013 þrefölduðust álögur vegna hækkana á lendingargjöldum, kolefnisskatti og flugleiðsögugjaldi. Þeim kostnaðarauka hefur verið velt út í verðlag en rannsóknir sýna að verðteygni í flug er um 0,5 til 1,0 sem þýðir að með 10 prósent verðhækkun verður 5 til 10 prósent fækkun í fjölda farþega, svo dæmi sé tekið.
Auk þess hafi aðrar samgöngubætur í samfélaginu áhrif en eftir að Landeyjarhöfn var tekin í notkun árið 2010, sama ár og álögur á flug voru auknar, er áætlað að í kjölfarið hafi orðið 70.000 farþegafækkun í flugi innanlands. Í heildina hefur farþegum í innanflugi fækkað um 20 prósent frá árinu 2008.
Þá hefur farþegum í innanlandsflugi ekki einungis fækkað heldur hefur frakt einnig minnkað en frá árinu 2013 hefur hún dregist saman um þriðjung. Með frakt í þessum skilningi er átt við bæði hefðbundna frakt og póst. Samkvæmt starfshópnum geta nokkrar ástæður verið fyrir þessari minnkun, svo sem almennur samdráttur í póstsendingum, fækkun flugferða innanlands og aukin samkeppni við landflutninga. Að mati hópsins gera þessar breytingar á fraktflutningum ásamt erfiðri stöðu í farþegaflutningum stöðu innanlandsflugsins erfiða.
Tveggja milljarða uppsöfnuð viðhaldsþörf
Í drögunum að grænbókinni eru lagaðar til ýmsar tillögur til að styrkja flugrekstur hér á landi til framtíðar en hópurinn telur að innanlandsflug skipti miklu máli fyrir íslenskt atvinnulíf. „Innanlandsflugið er þýðingarmikill samgöngumáti fyrir Íslendinga og skiptir miklu máli fyrir atvinnulífið og almenning þegar kemur að tengingum fjölmennra þéttbýlisstaða á landsbyggðinni við höfuðborgina,“ segir í stefnunni
Hópurinn leggur meðal annars til að almenningssamgöngur á milli Reykjavíkurflugvallar og Keflavíkurflugvallar verði styrktar svo að flugfarþegar geti auðveldlega farið á milli alþjóðaflugs og innanlandsflugs.
Auk þess leggur hópurinn mikla áherslu á að stjórnvöld tryggi aukið fjármagn til framkvæmda á flugvöllum en í stefnunni segir að eftir hrun hafi viðhald og nýframkvæmdir á flugvöllum setið á hakanum. Hópurinn áætlar að uppsöfnuð viðhaldsþörf flugvalla um allt land sé um tveir milljarðar króna. Starfshópurinn segir að ástandið sé orðið víða óviðunandi sem hafi meðal annars leitt til þjónustuskerðingar.
Jafnframt leggur hópurinn til að stofnaður verði sjóður um uppbyggingu varaflugvalla sem verði einkum fjármagnaður af flugrekendum en einnig íslenska ríkinu í upphafi í því skyni að ráða bót á brýnustu þörfinni. Hópurinn leggur til innheimt verði hóflegt flugvallagjald hjá flugrekendum sem mun renna inn í sjóðinn.