Nú sem fyrr streyma inn til Neytendasamtakanna ábendingar og fyrirspurnir frá fólki sem hefur tekið smálán sem eru í innheimtu hjá Almennri innheimtu ehf. þrátt fyrir yfirlýsingar fyrirtækisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Neytendasamtökunum.
Þá segir í tilkynningunni að fólk sé krafið um greiðslur á ólögmætum vöxtum og himinháum vanskilakostnaði en hafi í mörgum tilfellum verið látið borga margfalt meira en því ber. „Almenn innheimta ehf. leikur enn þann ljóta leik að hóta fólki með skráningu á vanskilaskrá Creditinfo, stilla því upp við vegg og innheimta himinháan vanskilakostnað ofan á kröfur sem fyrir liggur að eru ólögmætar,“ segir í tilkynningunni.
Gísli Kr. Björnsson, eigandi innheimtufyrirtækisins Almenn innheimta, hefur gefið það út að fyrirtækið sé hætt að veita smálán og innheimta smálán á hærri vöxtum en 53,75 prósent. Hann hefur enn fremur sagt að Almenn innheimta hafi útvegað allar sundurliðanir sem þau hefðu verið beðin um. Neytendasamtökin halda því aftur á móti fram að fullyrðingar Gísla stangist á við reynslu skjólstæðinga þeirra.
Standa ráðþrota gagnvart þessu framferði
„Athygli vekur að Almenn innheimta virðist gera allt til að flækja mál og tefja, meðal annars að áskilja sér 90 daga rétt til að afhenda sundurliðun yfir kröfurnar. Þá er fyrirtækið allt í einu farið að gera þá kröfu að fólk sendi mynd af persónuskilríki þrátt fyrir að hafa nægjanlega upplýsingar til að innheimta af því himinháar kröfur. Fengju lántakendur sundurliðun í hendur, kæmi líklegast í ljós að margar kröfurnar eru ólögmætar og hafi þegar verið greiddar margfaldlega til baka eins og mörg dæmi sanna,“ segir í frétt Neytendasamtakanna um málið.
Samtökin segjast standa ráðþrota gangvart þessu framferði og ekki muna eftir jafn svínslegum viðskiptaháttum og aðför að hópi neytanda sem oft sé veikur fyrir. Þá sé með öllu óskiljanlegt að lögmaður skuli komast upp með innheimtu á ólöglegum lánum og að halda mikilvægum gögnum frá lántakendum. Erindi Neytendasamtakanna til Lögmannafélags Íslands vegna starfshátta Gísla Kr. Björnssonar var vísað frá vegna aðildarskorts.