Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, brutu siðareglur alþingismanna með ummælum sem þeir létu falla á barnum Klaustri þann 20. nóvember síðastliðinn. Þetta kemur fram í áliti Siðanefndar.
Aðrir þingmenn sem tóku þátt í samtalinu, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmenn Miðflokksins, og Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, sem voru í Flokki fólksins þegar samtalið átti sér stað en gengu síðar til liðs við Miðflokkinn, brutu ekki gegn siðareglum að mati nefndarinnar. Morgunblaðið greindi fyrst frá og hefur birt álit siðanefndar auk andsvara þingmanna.
Vanvirðing í garð umræddra kvenna
Í áliti siðanefndar segir að Bergþór og Gunnar Bragi hafi gerst brotlegir við siðareglur alþingismanna með ummælum sem þeir létu falla á Klaustri bar. Siðanefnd fór yfir ummæli Bergþórs um Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingmann Samfylkingarinnar, og Lilja Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra.
Siðanefnd komst að þeirri niðurstöðu að ummæli Bergþórs séu „öll af sömu rótinni sprottin“. Þau séu ósæmileg og í þeim felist vanvirðing er lýtur að kynferði þeirra kvenna sem um er rætt. Einnig séu þau til þess fallin að kasta rýrð á Alþingi og skaða ímynd þess.
Nefndin fór einnig yfir ummæli Gunnars Braga um Albertínu og Lilju auk Ragnheiðar Runólfsdóttur, fyrrverandi sundkonu. Komist er að sömu niðurstöðu og í máli Bergþórs, að í ummælunum felist vanvirðing í garð umræddra kvenna og þau séu til þess fallin að skaða ímynd Alþingis.
Anna Kolbrún fékk að njóta vafans
Ummæli Sigmundar Davíðs og Önnu Kolbrúnar voru einnig tekin til skoðunar. Siðanefnd taldi rétt að Anna Kolbrún nyti vafans vegna ummæla sinna um Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi varaþingmann Bjartrar framtíðar. Þótti siðanefndinni að ummæli Önnu gætu skaðað ímynd Alþingis en erfitt væri að slá því föstu.
„Í ljósi afmörkunar forsætisnefndar og hversu takmarkaðar upplýsingar liggja til grundvallar þessum ummælum telur siðanefnd rétt að Anna Kolbrún Árnadóttir njóti vafans að þessu leyti,“ segir í álitinu.
Þá telur siðanefndin að ummæli Sigmundar Davíðs hafi ekki brotið gegn siðareglum.
Forsætisnefnd fundar um málið í dag
Siðanefndin tók einnig til umfjöllunar hvort að allir þingmennirnir á Klaustri hefðu brotið gegn siðareglum með því að sitja undir ummælum annarra þingmanna athugasemdalaust. Í áliti nefndarinnar segir að þingmennirnir hafi ekki gerst brotlegir vegna athafnaleysis.
Forsætisnefnd fundar um málið í dag en siðanefnd skilaði áliti sínu um Klaustursmálið í júlí. Þingmennirnir fengu vikufrest til að bregðast við álitinu og skiluðu Bergþór, Gunnar Bragi, Sigmundur Davíð og Anna Kolbrún inn andsvörum.