Heiðar Guðjónsson, formaður Efnahagsráðs norðurskautsins og forstjóri Vodafone og Stöðvar 2, segir í samtali við Kjarnann ýmsa kosti vera fyrir Ísland við þátttöku í Belti og braut, meðal annars aðgangur að gríðarlegu fjármagni til að byggja upp innviði. Þá séu kostirnir sérstaklega miklir fyrir skipafélög, verktaka og flugfélög sem felist í flutningatengdum innviðum og gagna- og vöruflutningum.
Innviða- og fjárvestingaverkefnið Belti og braut (kínv. 一带一路, e. Belt and Road Initiative) er verkefni sem einkennt hefur utanríkisstefnu Kína frá árinu 2013 undir stjórn forseta landsins, Xi Jinping. Með Belti og braut er vísað til hinnar fornu Silkileiðar sem tengdi Kína við umheiminn og vill Xi Jinping endurvekja hana undir formerkjum Beltis og brautar. Belti og braut – eða Silkileið 21. aldarinnar – skiptist í stuttu máli í svokallaðan silkiveg eða „belti“ á landi, til dæmis í formi lestarteina og hraðbrauta. Hinn hlutinn er silkileið á sjó eða „braut“ – til dæmis í formi hafna sem þar að auki tengir Kína við umheiminn.
„Innviðir á Íslandi eru takmarkaðir og miðað við hvað landið er ríkt hefur fjárfesting í innviðum setið á hakanum,“ segir Heiðar. „Ísland var í fyrndinni þjónustumiðstöð fyrir verslun á norðurslóðum. Hafnir á Íslandi eru íslausar árið um kring og er Ísland eina norðurslóðalandið, auk Noregs, með slíkar hafnir,“ segir hann. Íslendingar ættu jafnframt að nýta þau tækifæri sem hljótast með auknum flutningum á norðurslóðum og ætti landið að vera þjónustumiðstöð í Atlantshafi.
Heiðar segir mikilvægt að þátttaka í Belti og braut sé á forsendum heimamanna, þannig að lögsagan sé skýr. „Að Kínverjar séu að öðlast yfirráð í löndum sem þeir fjárfesta í er fjarstæðukennt,“ segir hann.
Með eða á móti ekki eina leiðin
Heiðar bendir á að Ísland hafi ekki einungis þessa tvo kosti; að taka annaðhvort þátt eða ekki. Þriðji kosturinn sé að fara að fyrirmynd Finna, það er að skrifa ekki undir þátttöku, heldur gera sérsamninga við kínversk stjórnvöld um verkefni sem rúmast til hliðar við Belti og braut. Þannig gangi Finnar ekki beint inn í heildarverkefni Beltis og brautar heldur geri sérsamninga um sérstök verkefni.
Hann segir að Norðurlöndin hafi enn ekki gerst formlegir aðilar að Belti og braut, en að Finnland sé að fá gríðarlega fjárfestingu í sína innviði. „Finnland er með verkefni að byggja neðansjávargöng frá Helsinki til Tallin að verðmæti 15 milljarða evra þar sem bæði Kínverjar og Evrópusambandið eru fyrirferðamikil innan þess verkefnis.“
„Annað verkefni er fjárfesting upp á 3 til 5 milljarða evra fyrir járnbraut frá Rovaniemi til Kirkenes. Þar eru bæði kínverskir aðilar og Evrópusambandið að fjárfesta,“ segir Heiðar. „Þessi fjárfesting, að búa til samgönguæð frá Kirkenes til Finnlands og tengja beint við Evrópu, skiptir Finna gríðarlega miklu máli. Það er dæmi um verkefni sem Kínverjar taka mikinn þátt í,“ segir hann.
Heiðar bendir á að Finnar leggi nú jafnframt sæstreng Norð-Austurleiðina, þar sem strengurinn fari norður fyrir Síberíu og niður til Japan og Kína. „Ef Kínverjar byggja innviði í Finnlandi þá hafa þeir ekki lögsögu þar. Þeir eru að taka áhættu með því að fjárfesta í landinu. Þeir þurfa að haga sér í samræmi við lög og reglur í viðkomandi landi, annars er hætta á að innviðir séu þjóðnýttir.“
Ameríkanar vilja ekki að Ísland skrifi undir samning við Kína
„Ameríkanar vilja alls ekki að við skrifum upp á svona samninga við Kína. Nú er kapphlaup hafið um uppbyggingu innviða á norðurslóðum,“ segir Heiðar. „Bandaríkin reyna að stilla mönnum upp, segja „við eða þeir.“ Bretar hafa hins vegar sótt sér tækifæri í því að semja bæði til austurs og vesturs,“ segir hann og bætir því við að hann telji að Íslendingar ættu ekki að skipa sér í ákveðið lið. Farsælast væri að eiga viðskipti til bæði austurs og vesturs.
Umdeilt framtak
Margir hafa þó gagnrýnt verkefnið og telja sumir að kínversk stjórnvöld vilji nota það til þess að auka stjórnmálaleg áhrif sín í heiminum. Bandaríkin eru eflaust það ríki sem er opinberlega hvað mest mótfallið verkefninu. Bæði varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, og utanríkisráðherra, Mike Pompeo, hafa gagnrýnt framtakið og sagt það varpa ríkjum í skuldagildru. Gagnrýnendur vísa einnig oft til aðstæðna Srí Lanka í því samhengi.
Í suðurhluta Srí Lanka hafa kínversk fyrirtæki einkaleigurétt til 99 ára á höfn sem kölluð er Hambantota höfnin. Það er vegna þess að stjórnvöld í Srí Lanka gátu ekki greitt skuld sína við kínversku fyrirtækin sem byggðu höfnina.
Bandaríkjamenn hafa jafnframt gagnrýnt skilmála sem ýmsar þjóðir hafa gengist við þar sem kínversk ríkisfyrirtæki standi að byggingunni eða lán undir formerkjum Beltis og brautar með það að skilyrði að kaupa vörur frá kínverskum fyrirtækjum.