Ivan Burkni

Ætti Ísland að taka þátt í Belti og braut?

Þátttaka í kínverska innviða- og fjárfestingaverkefninu Belti og braut stendur öllum ríkjum til boða. Ákveði íslensk stjórnvöld að taka þátt í verkefninu gæti það aukið aðgengi að innviðafjárfestingu, en verkefnið er þó afar umdeilt.

Innviða- og fjárvestingaverkefnið Belti og braut (kínv. 一带一路, e. Belt and Road Initiative) er verkefni sem einkennt hefur utanríkisstefnu Kína frá árinu 2013 undir stjórn forseta landsins, Xi Jinping. Með Belti og braut er vísað til hinnar fornu Silkileiðar sem tengdi Kína við umheiminn og vill Xi Jinping endurvekja hana undir formerkjum Beltis og brautar. Belti og braut – eða Silkileið 21. aldarinnar – skiptist í stuttu máli í svokallaðan silkiveg eða „belti“ á landi, til dæmis í formi lestarteina og hraðbrauta. Hinn hlutinn er silkileið á sjó eða „braut“ – til dæmis í formi hafna sem þar að auki tengir Kína við umheiminn. 

Verkefnið er afar víðfeðmt og nær frá Kína til Evrópu og Austur-Afríku, auk þess sem það nær til fjölmargra Asíuríkja. Að minnsta kosti 68 ríki hafa skrifað undir þátttöku í verkefninu og saman mynda ríkin um 40 prósent landsframleiðslu heimsins. 

Hnattvæðing hornsteinn verkefnisins

Yfirlýst markmið verkefnisins eru að auka samskipti um stefnumótun milli ríkja, auðvelda viðskipti og verslun, styrkja vegasamgöngur, auka gjaldeyrisviðskipti og styrkja samskipti þjóða. Því má segja að aukin hnattvæðing og samþætting sé hornsteinn verkefnisins.

Til að mynda er bygging lestarteina frá Shanghai, í gegnum Kasakstan og Rússland sem munu að lokum enda í London, framkvæmd undir formerkjum Beltis og brautar. Lestarteinarnir verða 12.000 kílómetra langir. 

Svo virðist sem allt sem viðkemur innviðum eða fjárfestingum tengt Kína falli nú undir formerki Beltis og brautar. Ekki eru það einungis hafnir, járnbrautir og lestir, heldur einnig netkerfi. Því gæti verið erfitt að greina á milli þess sem áður hefur verið byggt upp eða komið á fót en sé nú sagt vera undir formerkjum Beltis og brautar og svo þess sem var ákveðið frá upphafi að væri hluti af verkefninu.

Myndin sýnir áætlun kínverskra stjórnvalda um Belti og braut.
Mynd: Straits Times Graphics

Norðurslóðir nú hluti af Belti og braut

Á norðurslóðum er búist við aukinni skipaumferð eftir því sem ís á svæðinu bráðnar. Að sigla frá Kína til Evrópu í gegnum þennan heimshluta myndi stytta flutningstíma til muna sé miðað við núverandi flutningaleiðir. Þar með getur fjárhagslegur hvati að flytja vörur um svæðið myndast.

Í janúar 2018 gáfu kínversk stjórnvöld út sína fyrstu norðurslóðastefnu. Í henni segjast þau vilja gera norðurslóðir hluta af Silkiveginum á ís (kínv. 冰上丝绸之路) eða Silkivegi norðurslóða og þar með hluta af Belti og braut. Enn fremur titla kínversk stjórnvöld Kína sem „nærríki norðurslóða“ (kínv. 近北极国家) í stefnu sinni.

Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, segir í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans að íslensk stjórnvöld séu opin fyrir þátttöku í Belti og braut. Íslensk stjórn­völd hafa þó ekki mótað sér end­an­lega afstöðu til verk­efn­is­ins, að því er fram kemur í svari utan­rík­is­ráðu­neyt­is­ins við fyr­ir­spurn Kjarn­ans. Í svarinu segir að ráðu­neytið hafi haft málið til skoð­unar í því augna­miði að greina hvað í fram­tak­inu felist og hvað aðild eða teng­ing við það gæti þýtt fyrir íslenska hags­mun­i.

Umdeilt framtak

Margir hafa þó gagnrýnt verkefnið og telja sumir að kínversk stjórnvöld vilji nota það til þess að auka stjórnmálaleg áhrif sín í heiminum. Bandaríkin eru eflaust það ríki sem er opinberlega hvað mest mótfallið verkefninu. Bæði varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, og utanríkisráðherra, Mike Pompeo, hafa gagnrýnt framtakið og sagt það varpa ríkjum í skuldagildru. Gagnrýnendur vísa einnig oft til aðstæðna Srí Lanka í því samhengi.

Í suðurhluta Srí Lanka hafa kínversk fyrirtæki einkaleigurétt til 99 ára á höfn sem kölluð er Hambantota höfnin. Það er vegna þess að stjórnvöld í Srí Lanka gátu ekki greitt skuld sína við kínversku fyrirtækin sem byggðu höfnina.

Bandaríkjamenn hafa jafnframt gagnrýnt skilmála sem ýmsar þjóðir hafa gengist við þar sem kínversk ríkisfyrirtæki standi að byggingunni eða lán undir formerkjum Beltis og brautar með það að skilyrði að kaupa vörur frá kínverskum fyrirtækjum.

Lykilbandamenn Bandaríkjanna, til að mynda Ísrael, Suður-Kórea og Filippseyjar, eru meðal þátttökuríkja Beltis og brautar og virðast Bandaríkin nú vera komin í samkeppni við Belti og braut. Bandaríkin komu nýlega á lögum um alþjóðlega þróunarfjárfestingar – sem kallast á ensku The BUILD Act – sem minnir að mörgu leyti á hið kínverska verkefni.

Fleiri lönd hikandi við að taka þátt

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur einnig gagnrýnt verkefnið. Hann hefur lagt áherslu á að Belti og braut eigi ekki að vera „einstefnuvegur“ – það er að Kína geti einungis fjárfest í öðrum ríkjum – heldur ættu þátttökuríki einnig að geta fjárfest í Kína. Stjórnvöld þar í landi ættu ekki að notfæra sér Belti og braut til þess að ná yfirráðum yfir öðrum löndum og gera þátttökuríki undirgefin því. 

Evrópa og Belti og braut

Alls hafa 17 Evrópulönd skrifað undir viljayfirlýsingu um þátttöku í Belti og braut. Áður var talað um 16+1 löndin í því samhengi, það er að segja þau 16 Mið- og Austur-Evrópuríki sem taka þátt, auk Kína (+1). Nú væri þó réttara að tala um 17+1 þar sem nýlega bættist Ítalía í hópinn.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett fram sína eigin áætlun til þess að bæta samgöngur og innviði í Asíu ásamt því að vera nú komin með erlenda fjárfestingaráætlun í Afríku. Því virðist Evrópusambandið, líkt og Bandaríkin, vera orðið að eins konar keppinaut Kína í þessum málefnum.

Hin nýskipaða breska ríkisstjórn virðist jákvæð gagnvart Belti og braut. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði nýju ríkisstjórn sína vera fylgjandi Kína. „Við erum afar hrifin af Belti og braut. Við höfum mikinn áhuga á hvað Xi forseti er að gera,“ sagði hann daginn sem hann hóf störf sín sem forsætisráðherra.

Einnig eru margir innan Evrópusambandsins jákvæðir gagnvart verkefninu. Maroš Šefčovič, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði til að mynda að Evrópusambandið vildi vinna að samhljómi sambandsins með Belti og braut.

Á ráðstefnu um Belti og braut árið 2017 neituðu Bretland, Frakkland og Þýskaland að skrifa undir þátttöku í verkefninu vegna þess að þau töldu ekki nógu skýrt hvernig útboðum á framkvæmdum í tengslum við Belti og braut yrði háttað.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, eru báðir mjög gagnrýnir á Belti og braut.
Mynd: EPA

Kínversk stjórnvöld hafa ávallt neitað fyrir að Belti og braut sé leið þeirra til að ná yfirráðum yfir öðrum ríkjum. Þau leggja áherslu á að Belti og braut sé verkefni þar sem allir græði (kínv. 共赢, e. win-win), auk þess séu ásakanir um að verkefnið sé skuldagildra óhróður sem kínversk stjórnvöld vísi á bug.

Hvað græða þátttökuríki á Belti og braut?

Þátttaka í verkefninu er sem stendur öllum ríkjum opin. Mörg þátttökuríki fagna verkefninu vegna aukinna kínverskra fjárfestinga þar sem mörg hver þeirra hafi þörf á að byggja upp innviði sína, til dæmis hafnir, lestarteina, hraðbrautir eða flugvelli.

Enn fremur gæti þátttaka aukið hraða viðskipta á milli þátttökuríkjanna við Kína og önnur lönd og þar með verið löndum til bóta. Talsmenn verkefnisins segja að það geti gert ríkjum kleift að þróa hagkerfi sín og jafnvel dregið úr fátækt

Varðandi hvað þátttaka myndi þýða fyrir Ísland og hvaða breytingar það hefði í för með sér segir Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi í svari við fyrirspurn Kjarnans, að Belti og braut geti þjónað sem nýr vettvangur og veitt kínversk-íslenskri samvinnu ný tækifæri. Þátttaka Íslands myndi styrkja tengsl á milli landanna. Með stuðningi Beltis og brautar, AIIB og Silkivegssjóðsins gætu Kína og Ísland unnið betur saman með því að byggja tengslanet á sjó, lofti og á netinu, auk þess að byggja innviði fyrir ferðamenn, koma á siglingaleiðum um Silkiveg norðurslóða, beinu flugi og 5G samskiptakerfi.

Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, segir Belti og braut geta eflt vöxt tvíhliða viðskipta á vörum og þjónustu á milli landanna og aukið tvíhliða fjárfestingar.
Mynd: úr safni

Sendiherrann segir að þátttaka Íslands gæti aukið samvinnu í viðskiptalífi og verslun á milli landanna tveggja. Það sé vegna þess að hagvöxtur í Kína er stór hluti heimshagkerfisins og þurfi kínverski markaðurinn nú að mæta aukinni eftirspurn á vörum, þar á meðal á vörum frá Íslandi. 

„Með batnandi lífskjörum kjósa fleiri og fleiri Kínverjar að ferðast utan landsteinanna. Ísland hefur hlotið aukinn fjölda kínverskra ferðamanna árlega sem hefur aukið þjónustuviðskipti á Íslandi. Á sama tíma gæti Belti og braut stutt við fríverslunarsamning landanna okkar tveggja sem myndi efla vöxt tvíhliða viðskipta á vörum og þjónustu og samvinnu í netverslun og auka tvíhliða fjárfestingar,“ segir sendiherrann.

Hvað græðir Kína á Belti og braut?

Kínversk stjórnvöld eru undir formerkjum Beltis og brautar að fjárfesta í innviðum annarra ríkja til þess að vinna að markmiðum verkefnisins og auðvelda allan inn- og útflutning. Með aukinni innviðabyggingu í bæði nær- og fjærríkjum Kína mun flutningsgeta aukast og þar með gætu viðskipti Kína við önnur ríki aukist.

Ýmsir fræðimenn hafa bent á að kínversk stjórnvöld vilji gera Kína tæknivæddara og auka þróun ýmissa héraða ríkisins. Einkaneyslu þurfi einnig að auka til að halda uppi hagvexti ríkisins og verkefnið muni enn fremur styrkja gjaldmiðil ríkisins. Aðrir telja að verkefnið sé að mestu strategískt, til að mynda í Indlandshafi. Stærra net hafna í hafinu tryggi Kína aðgengi að sjóleiðum sem sé bráðnauðsynlegt fyrir ríki eins og Kína sem byggir sinn efnahag á útflutningi.

Sex billjón Bandaríkjadala

Með Belti og braut er lögð áhersla á sameiginlegan ávinning Kína og þeirra ríkja sem taka þátt í Belti og braut, að því er kemur fram í svari Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi. „Belti og braut einblínir á samhæfða stefnu, innviðatengsl, óhindruð viðskipti, fjárhagslega samþættingu og sterkari tengsl fólks. Verkefnið leitast eftir opinni, grænni og hreinni þróun,“ segir Jin. 

Viðskiptamagn á milli Kína og landa sem eru hluti af Belti og braut er meira en sex billjón Bandaríkjadala og fjárfestingar meira en 80 milljarðar Bandaríkjadala

Sendiherrann segir að verkefnið hafi fengið mikinn meðbyr og stuðning alþjóðasamfélagsins. „Í dag hefur Kína skrifað undir samstarfssamninga á grundvelli Beltis og brautar við 127 ríki og 29 alþjóðlegar stofnanir. Viðskiptamagn á milli Kína og landa sem eru hluti af Belti og braut er meira en sex billjón Bandaríkjadala og fjárfestingar meira en 80 milljarðar Bandaríkjadala.“

Rafrænn Silkivegur möguleiki

„Kína og Ísland geta einnig eflt samvinnu sína í framleiðslu á snjalltækni, rafrænum efnahag og verndun hugverkaréttinda, kannað nýja tækni, ný form og leiðir til viðskipta, ásamt því að styrkja samvinnu með stór gagnasett, skýjatækni og uppbyggingu snjallra borga,“ segir Jin.

Ísland gæti fengið aukið aðgengi að fleiri mörkuðum með þátttöku í Belti og braut, samkvæmt sendiherranum. „Að því leyti getur háþróuð tækni Íslands í jarðvarma komist á stærri vettvang þegar hún er sameinuð fjármagni og markaði landa í Belti og braut,“ segir hann. 

Hver áhrif þátttaka Íslands í verkefninu yrðu á stjórnmálalegt samband ríkjanna tveggja telur Jin að þátttaka Íslands í Belti og braut myndi vissulega vera tvíhliða samskiptum Kína og Íslands hagstæð. Ríkin gætu þannig dýpkað samvinnu sína með aðstoð Beltis og brautar.

Ég vona og trúi að íslensk stjórnvöld ákveði að taka þátt í Belti og braut í nákominni framtíð. Mig langar ekki að sjá Ísland missa af stórum tækifærum sem Belti og braut skapar

Varðandi hverjar afleiðingarnar yrðu fyrir Ísland ef það kysi að taka ekki þátt í Belti og braut segir Jin: „Ég vona og trúi að íslensk stjórnvöld ákveði að taka þátt í Belti og braut í nákominni framtíð. Mig langar ekki að sjá Ísland missa af stórum tækifærum sem Belti og braut skapar.“

Fjárfesting í innviðum setið á hakanum

Heiðar Guðjónsson, formaður Efnahagsráðs norðurskautsins og forstjóri Vodafone og Stöðvar 2, segir í samtali við Kjarnann ýmsa kosti vera fyrir Ísland við þátttöku í Belti og braut, meðal annars aðgangur að gríðarlegu fjármagni til að byggja upp innviði. Þá séu kostirnir sérstaklega miklir fyrir skipafélög, verktaka og flugfélög sem felist í flutningatengdum innviðum og gagna- og vöruflutningum. 

Heiðar Guðjónsson, formaður Efnahagsráðs norðurskautsins og forstjóri Vodafone og Stöðvar 2.
Mynd: Kjartan Þorbjörnsson

„Innviðir á Íslandi eru takmarkaðir og miðað við hvað landið er ríkt hefur fjárfesting í innviðum setið á hakanum,“ segir Heiðar. „Ísland var í fyrndinni þjónustumiðstöð fyrir verslun á norðurslóðum. Hafnir á Íslandi eru íslausar árið um kring og er Ísland eina norðurslóðalandið, auk Noregs, með slíkar hafnir,“ segir hann. Íslendingar ættu jafnframt að nýta þau tækifæri sem hljótast með auknum flutningum á norðurslóðum og ætti landið að vera þjónustumiðstöð í Atlantshafi.

Að Kínverjar séu að öðlast yfirráð í löndum sem þeir fjárfesta í er fjarstæðukennt

Heiðar segir mikilvægt að þátttaka í Belti og braut sé á forsendum heimamanna, þannig að lögsagan sé skýr. „Að Kínverjar séu að öðlast yfirráð í löndum sem þeir fjárfesta í er fjarstæðukennt,“ segir hann. 

Með eða á móti ekki eina leiðin

Heiðar bendir á að Ísland hafi ekki einungis þessa tvo kosti; að taka annaðhvort þátt eða ekki. Þriðji kosturinn sé að fara að fyrirmynd Finna, það er að skrifa ekki undir þátttöku, heldur gera sérsamninga við kínversk stjórnvöld um verkefni sem rúmast til hliðar við Belti og braut. Þannig gangi Finnar ekki beint inn í heildarverkefni Beltis og brautar heldur geri sérsamninga um sérstök verkefni.

Hann segir að Norðurlöndin hafi enn ekki gerst formlegir aðilar að Belti og braut, en að Finnland sé að fá gríðarlega fjárfestingu í sína innviði. „Finnland er með verkefni að byggja neðansjávargöng frá Helsinki til Tallin að verðmæti 15 milljarða evra þar sem bæði Kínverjar og Evrópusambandið eru fyrirferðamikil innan þess verkefnis.“

„Annað verkefni er fjárfesting upp á 3 til 5 milljarða evra fyrir járnbraut frá Rovaniemi til Kirkenes. Þar eru bæði kínverskir aðilar og Evrópusambandið að fjárfesta,“ segir Heiðar. „Þessi fjárfesting, að búa til samgönguæð frá Kirkenes til Finnlands og tengja beint við Evrópu, skiptir Finna gríðarlega miklu máli. Það er dæmi um verkefni sem Kínverjar taka mikinn þátt í,“ segir hann.

Heiðar bendir á að Finnar leggi nú jafnframt sæstreng Norð-Austurleiðina, þar sem strengurinn fari norður fyrir Síberíu og niður til Japan og Kína. „Ef Kínverjar byggja innviði í Finnlandi þá hafa þeir ekki lögsögu þar. Þeir eru að taka áhættu með því að fjárfesta í landinu. Þeir þurfa að haga sér í samræmi við lög og reglur í viðkomandi landi, annars er hætta á að innviðir séu þjóðnýttir.“

Ameríkanar vilja alls ekki að við skrifum upp á svona samninga við Kína. Nú er kapphlaup hafið um uppbyggingu innviða á norðurslóðum

„Ameríkanar vilja alls ekki að við skrifum upp á svona samninga við Kína. Nú er kapphlaup hafið um uppbyggingu innviða á norðurslóðum,“ segir Heiðar. „Bandaríkin reyna að stilla mönnum upp, segja „við eða þeir.“ Bretar hafa hins vegar sótt sér tækifæri í því að semja bæði til austurs og vesturs,“ segir hann og bætir því við að hann telji að Íslendingar ættu ekki að skipa sér í ákveðið lið. Farsælast væri að eiga viðskipti til bæði austurs og vesturs.

Hverjir eru valkostir Íslands?

Íslandi stendur til boða að taka þátt í Belti og braut. Í raun er því ekkert til fyrirstöðu og geta íslensk stjórnvöld ákveðið sína stefnu gagnvart verkefninu. Þátttaka gæti aukið fjárfestingar á Íslandi og auðveldað uppbyggingu innviða, einnig gæti þátttaka greitt leið fyrir viðskiptum við Kína og styrkt almenn samskipti við fjölmennasta ríki heims. 

Því er ljóst að efnahagslegur hagur gæti orðið af þátttöku í verkefninu en hins vegar gæti þátttaka haft ýmsar ófyrirséðar stjórnmálalegar afleiðingar fyrir Ísland. Ákveði íslensk stjórnvöld að taka þátt í Belti og braut væri skynsamlegt að hafa öll ákvæði skýr hvað varðar fjárfestingar og framkvæmdir, til að mynda að hafa skýrt kveðið á um hvernig útboðum sé háttað. Jafnframt er mikilvægt að stíga varlega til jarðar og rýna ítarlega í hverjar afleiðingar þátttöku yrðu fyrir land og þjóð.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnGuðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar